Fótbolti

Íslendingar í hefndarhug

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr tapleiknum fræga í Liechtenstein.
Úr tapleiknum fræga í Liechtenstein. Nordic Photos / AFP

Bidu Zaugg, landslisðþjálfari Liechtenstein, segist þess fullviss að Íslendingar séu í hefndarhug fyrir landsleik liðanna á La Manga á morgun.

Eins og frægt er gerði Ísland jafntefli við Liechtenstein á heimavelli, 1-1, og tapaði svo á útivelli, 3-0, í undankeppni EM 2008. Eru þetta ein verstu úrslit í sögu íslenskrar knattspyrnu.

„Það er ljóst að Ísland vill vinna okkur eftir síðustu tvo leiki," sagði Zaugg í samtali við fjölmiðla í Liechtenstein. „En ég veit þó ekki fyrir víst hvaða leikmenn eru með íslenska landsliðinu hér á La Manga. En ég býst við góðri frammistöðu minna manna í leiknum og góðri niðurstöðu."

Tveir af sterkari leikmönnum landsliðsins verða fjarverandi í leiknum - þeir Michele Polverino og Marco Ritzberger sem báðir leika með FC Vaduz í heimalandinu - sama félagi og þeir Guðmundur Steinarsson, Stefán Þórðarson og Gunnleifur Gunnleifsson leika með.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×