Erlent

Hvetur til heilags stríðs vegna árása Ísraela

Osama bin laden
Osama bin laden

Osama bin Laden, leiðtogi Al Kaída hryðjuverkasamtakanna, hvetur til heilags stríðs vegna árása Ísraela á Gaza.

Hljóðupptaka sem sögð er með bin Laden var birt á vefsíðu herskárra múslima í morgun. Upptakan er sögð hafa verið gerð í þessum mánuði. Á upptökunni hvetur leiðtogi Al Kaída til heilags stríðs vegna árása Ísraela á Gaza.

Yfirvöld á Gaza segja að níu hundruð sjötíu og einn Palestínumaður hafi fallið í árásunum sem héldu áfram í nótt og var sprengjum varpað á um sextíu skotmörk. Bardagar í návígi eru einnig sagðir hafa harnað. Íbúar segjast hafa heyrt mikla vélbyssuskothríð síðasta sólahringinn meðan ísrelskir hermenn börðust við herskáa liðsmenn Hamas nærri Gazaborg.

Flugskeytum hefur einnig verði skotið á Ísrael frá Gaza en til viðbótar einnig frá Líbanon í morgun. Það er annað sinn sem það gerist frá því árásin á Gaza hófst. Enginn Ísraeli féll í flugskeytaárásunum í nótt og í morgun en þrettán hafa fallið í slíkum árásum frá upphafi átaka.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er kominn til Kaíró í Egyptalandi, þar sem hann mun reyna að koma af stað viðræðum sem miða að því að binda enda á bardaga á Gaza.

Á meðan berast fréttir af deilum í ísraelsku ríkisstjórninni um hvað eigi að gera næst. Ehud Barak varnarmálaráðherra er sagður vilja fjögurra vikna vopnahlé til að hægt verði að flytja hjálpargöng til þjáðra. Þá fái ísraelskir ráðamenn svigrúm til að semja tillögur að varanlegu vopnahlé. Ehud Olmert, forsætisráðherra, mun ósammála þessu og er sagður vilja halda hernaðinum áfram og berjast eins lengi og þurfa þyki.

Ban Ki-moon mun í framhaldi Egyptalandsfunda fara til viðræðna við ráðamenn í Jerúsalem og á Vesturbakkanum og einnig funda með leiðtogum Hamas. Ak þess sem hann mun ræða við ráðamenn ýmissa ríkja á svæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×