Innlent

Sviss fór í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu 2001

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Tillaga sjálfstæðismanna um tvöfalda atkvæðagreiðslu er meðal þess sem nú er til umræðu í þinginu.
Tillaga sjálfstæðismanna um tvöfalda atkvæðagreiðslu er meðal þess sem nú er til umræðu í þinginu. Mynd/Vilhelm
Svisslendingar fóru leið tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2001 þegar til stóð að ganga tafarlaust til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.

Þetta kemur fram á vef Sjálfstæðisflokksins, en þingmenn flokksins hafa reynt að vinna tillögu flokksforystunnar um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu fylgis í þinginu undanfarna daga.

Fyrir þá sem ekki vita gengur tvöföld atkvæðagreiðsla um aðild að Evrópusambandinu út á það að þjóð kjósi fyrst um hvort ganga skuli til viðræðna yfir höfuð, og síðan aftur um samninginn sem ríkinu býðst.

Þingmenn ríkisstjórnarinnar hafa gagnrýnt þá leið og sagt að fyrri atkvæðagreiðslan fari fram án þess að þjóðin hafi nauðsynlegar forsendur. Í viðtali við Morgunblaðið á mánudag sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, að engin þjóð hafi farið út í slíkt.

Það skiptir þó engum togum að Svisslendingar, félagar Íslendinga í Fríverslunarsamtökum Evrópu, hafi farið leið tvöfaldrar atkvæðagreiðslu þann fjórða mars fyrir átta árum. Þá hafnaði svissneska þjóðin tillögu um aðildarviðræður við ESB með talsverðum meirihluta að því er fréttastofa BBC greindi frá á þeim tíma.

Hópurinn sem stóð að baki tillögunni kallaði sig Nýju svissnesku Evrópuhreyfinguna, en tillagan var kölluð Já við Evrópu. Hópurinn safnaði hundrað þúsund undirskriftum og gat því lögum samkvæmt knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Á þeim tíma var verðbólga í Sviss minni en í ESB, hagvöxtur meiri og atvinnuleysið aðeins um tvö prósent að því er kemur fram í frétt BBC. Þótti því mörgum Svisslendingum meira tapað en unnið með aðild, auk þess sem landið var þegar aðili að sérstökum tvíhliða samningum við sambandið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×