Innlent

Ástþór fór heim til lögreglustjórans

Stefán Eiríksson tók ágætlega í heimsókn Ástþórs.
Stefán Eiríksson tók ágætlega í heimsókn Ástþórs.

Frambjóðandi Lýðræðishreyfingarinnar, Ástþór Magnússon, fór að heimili Stefáns Eiríkssonar í dag og hvatti hann til þess að bregðast við kærum sem hann hefur lagt fram gegn RÚV undanfarið. Áður fór Ástþór upp í höfuðstöðvar Ríkissjónvarpsins og kallaði lögreglu á vettvang. Hann var þá vopnaður gjallahorni og gekk hringinn í kringum húsið með sírenuhljóð á.

Með þessu vildi hann vekja athygli á meintri mismunu framboða. Til að mynda vantaði hlekk inn á síðu Lýðveldishreyfingarinnar á kosningavef RÚV auk kosningalista flokksins. Þrátt fyrir allnokkrar aðfinnslur þá var lítið gert í málinu. Það var ekki fyrr Ástþór fór mikinn í útvarpsviðtali í Síðdegisútvarpinu sem hlekkurinn var settur inn á síðuna. Nú hafa listarnir verið birtir á heimasíðu RÚV.

„Ég fór fyrst á lögreglustöðina en þeir vildu ekki tala við," sagði Ástþór sem fór rakleiðis niður á lögreglustöð eftir andófið við RÚV, til þess að ítreka kæruna sem hann lagði inn þann fimmta apríl síðastliðinn.

Að sögn Ástþórs vildi enginn ræða við hann á lögreglustöðinni svo úr varð að hann fór að heimili Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra.

„Ég benti Stefáni á að þetta gæti ógilt alla kosninguna og að þetta væri bara kriminalt," sagði Ástþór um samtal sitt við lögreglustjórann. Hann segir að samskipti þeirra hafi verið á kurteysu nótunum, hann hafi skilið gjallahornið eftir í þetta skiptið.

Fulltrúi Lýðræðishreyfingarinnar sendi svo fréttatilkynningu út síðdegis þar sem flokkurinn segist vera með 32,5 prósent fylgi samkvæmt nýrri skoðanakönnun á mbl.is.

Þegar betur er að gáð þá má sjá að könnuninn er á heimasíðu Hvíta riddarans. Ábyrgðarmaðurinn heitir Loftur Þór Þórunnarson.

Alls hafa 1170 kosið í könnuninni samkvæmt tilkynningu frá hreyfingunni. Óljóst er þó hvaða markhóp Hvíti riddarinn höfðar til, eða hvernig kynja- og búsvæðaskipting er. Hreyfingin mældist síðast með 0,4 prósent fylgi í könnun Gallup capacent.

Engu að síður, á heimasíðu Hvíta Riddarans, þá er Lýðræðishreyfingin sigurstangleg fyrir næstu kosningar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×