Lífið

Hjólakeppni á hundrað ára afmæli

Pönnukökubakstur er ein af starfsíþróttunum sem keppt verður í á landsmóti UMFÍ.
Pönnukökubakstur er ein af starfsíþróttunum sem keppt verður í á landsmóti UMFÍ.

Fyrsta alvöru hjólakeppnin á Íslandi verður haldin í tengslum við 26. landsmót UMFÍ sem fer fram helgina 9. til 12. júlí.

„Hjólreiðakeppnin hefst klukkan sjö á miðvikudagsmorgun í Reykjavík," segir Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Landsmóts UMFÍ. „Frá Reykjavík fara ellefu þriggja manna lið og koma í mark klukkan átta um kvöldið á Akureyri. Landsmótið hefst svo daginn eftir og verður sett á föstudagskvöld."

Landsmót UMFÍ stendur um þessar mundir á tímamótum því hundrað ár eru liðin frá því að fyrsta landsmótið var haldið í júní árið 1909 á Akureyri. „Upphafið að landsmótunum var að úr ungmennahreyfingunni kom áskorun um að halda íþróttamót fyrir Ísland allt strax árið 1907," segir Ómar og bætir við að nú hafi í tilefni af fyrsta landsmóti UMFÍ verið ákveðið að halda mótið á nýjum leikvangi á Hamarssvæði á Akureyri. „Mótið hefur farið á milli staða á landinu og hefur til dæmis verið haldið á Laugum, Hveragerði og Þingvöllum."

Ómar segir að fjöldi keppnisgreina á mótinu hafi aukist til muna frá því fyrir hundrað árum. „Mér sýnist keppnisgreinarnar hafa verið fjórar 1909 en núna eru þær tæplega þrjátíu," upplýsir Ómar og telur upp nokkrar þeirra mótsgreina sem nú verður keppt í. „Það eru allar þessar hefðbundnu greinar; sund, blak og golf. Síðan eru það starfsíþróttir sem hafa fylgt okkur á landsmótunum. Þar er keppt í greinum eins og pönnukökubakstri, dráttarvélarakstri og stafsetningu."

Aðspurður segir Ómar að nýjungar séu á dagskránni. „Nú munum við í fyrsta skipti keppa í maraþoni. Við erum með sjósund, keilu og strandblak sem eru kynningargreinar sem fólk getur tekið þátt í. Við verðum með kirkjutröppuhlaup þar sem tveir keppa og tekinn tími á því hversu fljótir þeir eru að hlaupa upp tröppurnar á Akureyrarkirkju sem eru frægar."

Ómar segir að á fyrsta landsmóti UMFÍ hafi verið 55 keppendur og 1.500 mótsgestir en nú, hundrað árum síðar, munu þátttakendur verða um tvö þúsund. „Okkur sýnist að Íslendingar ætli að ferðast innanlands í sumar þannig að við vonumst eftir tíu til fimmtán þúsund áhorfendum."







Frjálsar Keppt verður í frjálsum íþróttum á mótinu og margir af þekktustu íþróttamönnum þeirrar greinar munu mæta til leiks.mynd/Pedromyndir, þórhallur
Hundrað ár eru frá fyrsta landsmóti UMFÍ sem haldið var á Akureyri.


Árið 1909 voru keppnisgreinarnar á landsmóti UMFÍ fjórar en nú eru þær tæplega þrjátíu.mynd/Pedromyndir, þórhallur





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.