Innlent

Eru innistæður tryggðar að fullu?

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, tekur ekki af allan vafa um að innistæður viðskiptabankanna sem hafa staðfestu á Íslandi verði tryggðar að fullu þótt bankarnir fari úr eigu ríkisins eða í eigu erlendra aðila.

Í tilkynningu vegna samkomulags stjórnvalda við skilanefndir bankanna þriggja kemur fram að allar innistæður bankanna séu tryggðar samkvæmt lögum um Tryggingasjóð innistæðueigenda.

Þegar Steingrímur var spurður á blaðamannafundi fyrr í dag hvort innistæðurnar væru tryggðar að fullu, eða einungis upp að lögbundnu lágmarki, tæpum 3,6 milljónum, vísaði hann til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að tryggja innlenda bankamarkaðinn.

„Hún hefur ekki verið afturkölluð, en það hefur heldur ekki verið gefið neitt út um að hún standi um aldur og ævi. Væntanlega tekur svo smátt og smátt við hér venjubundið ástand," segir Steingrímur.

Hann segir strangar kröfur verða settar og fjármögnun bankanna verði sterk; eiginfjárhlutfall þeirra verði um 12%.

„Þetta verður allt tekið út af Fjármálaeftirlitinu og það verður ekki gefið grænt ljós á þessa leið nema öllum skilyrðum sé fullnægt, og þá eiga allir að geta verið öruggir og rólegir um sig."

Þannig að já, þær eru tryggðar að fullu?

„Þær verða tryggðar svona, eins og eðli málsins leiðir af sér."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×