Innlent

Frjálslyndir velja sér þingflokksformann á morgun

Breki Logason skrifar
Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins.
Guðjón Arnar Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins.

Jón Magnússon þingmaður hefur sagt sig úr Frjálslynda flokknum en hann hefur verið þingflokksformaður síðan Kristinn H. Gunnarsson lét af því embætti. Nýr formaður verður skipaður á þingflokksfundi á morgun klukkan 16:00. Vísir tók púlsinn á þingflokknum, ræddi við alla þingmenn hans og spurði hver væri líklegastur.

„Það verður ákveðið á þingflokksfundi á miðvikudaginn klukkan fjögur. Við tókum ákvörðun um að gera þetta þá og það kemur í ljós á morgun," sagði Guðjón Arnar Kristjánsson formaður flokksins.

Kristinn H. Gunnarsson sem var þingflokksformaður benti á formann flokksins og vildi lítið tjá sig um hver hlyti embættið. Aðspurður hvort hann gæfi kost á sér aftur sagði Kristinn eftir langa þögn, „ég segi ekkert til um það".

Grétar Mar Jónsson vísaði í fyrrnefndan þingflokksfund og játaði því að ekki kæmu margir til greina. „Við erum þrír, ætli það verði ekki bara ugla sat á kvisti átti börn og missti," sagði Grétar og hló.

„Nei, nei það kemur í ljós hvað verður. Við leysum það með einhverjum góðum aðferðum."

Þess má geta að Guðjón Arnar Kristjánsson hefur tekið sér tveggja vikna frí frá þingstörfum til þess að sinna kjödæmamálum og undirbúningi fyrir landsþing flokksins sem haldið verður 13.-14.mars.

Í stað hans tekur sæti á þingi varaþingmaðurinn Ragnheiður Ólafsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×