Innlent

Gagnrýna lögreglu vegna handtöku hústökufólks

Frá handtöku hústökufólksins við Vatnsstíg á miðvikudaginn í síðustu viku.
Frá handtöku hústökufólksins við Vatnsstíg á miðvikudaginn í síðustu viku. MYND/Vilhelm
Torfusamtökin gagnrýna vinnulag lögreglunnar við handtöku hústökufólks við Vatnsstíg í síðustu viku. Þau segja að furðu veki að slíkri hörku hafi verið beitt gagnvart aðgerðum hóps sem hafi haft það eitt að markmiði að benda á leiðir til að bæta umhverfi og samfélag í miðbænum.

Lögregla braut sér leið inn í hús við Vatnsstíg, þar sem hústökufólk hafði komið sér fyrir, á miðvikudaginn í síðustu viku og rýmdi það. Yfir tuttugu voru handteknir og þar af átján sem voru inni í húsinu.

Torfusamtökin segja að hliðstæðri hörku hafi að jafnaði ekki verið beitt gagnvart ógæfumönnum sem í lengri eða skemmri tíma hafi tekið sér bólfestu í auðum húsum, enda þótt bæði nágrönnum og húseignunum sjálfum stafi mun meiri ógn af slíkum gestum.

„Frá sjónarhóli meðalhófs og jafnræðis verður lögreglan að huga að því hverra hagsmuna hún er að gæta í tilvikum sem þessum," segir í tilkynningu frá Torfusamtökunum.

Skipulagsmál í eldri hverfum eru vandmeðfarin og þar takst á ólíkir hagsmunir, að mati samtakanna. Sjónarmið um varðveislu menningarminja og eflingu jákvæðs mannlífs í miðbænum fari ekki alltaf saman við fjárhagslega hagsmuni þeirra sem eiga auðu húsin. Þeir hafi í mörgum tilvikum ótvíræðan hag af hrörnun þeirra.

„Það liggur fyrir að ekki er komin formleg niðurrifsheimild fyrir þetta tiltekna hús við Vatnsstíg, en allar ákvarðanir um breytingar eða niðurrif á húsum sem byggð eru fyrir 1918 falla undir lög um húsafriðun."

Torfusamtökin beina þeim tilmælum til lögreglunar að hún gæti að húsum sem hafa minjagildi og standi svo að málum að aðgerðir hennar valdi ekki tjóni á sögulegum minjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×