Lífið

Stutt á milli gríns og drama

Bandaríski leikstjórinn hefur sent frá sér myndina Funny People.
Bandaríski leikstjórinn hefur sent frá sér myndina Funny People.
Þriðja kvikmynd bandaríska leikstjórans Judds Apatow, Funny People, verður frumsýnd á morgun. Í símaviðtali við Fréttablaðið segir hann að jafnvel alvarlegustu augnablik lífsins séu fyndin.

Judd Apatow sló í gegn með sinni fyrstu mynd, The 40 Year Old Virgin og fylgdi henni vel á eftir með Knocked Up. Hann er í dag einn áhrifamesti leikstjóri og framleiðandi gamanmynda í Hollywood en í Funny People kveður við alvarlegri tón, þótt grínið sé aldrei fjarri. Myndin fjallar um vinsælan leikara og uppistandara (Adam Sandler) sem þykir full sjálfselskur og upptekinn af frægðinni.

Eftir að hann kemst að því að hann er haldinn banvænum sjúkdómi kynnist hann ungum og upprennandi grínista (Seth Rogen) og býðst til að gerast aðstoðarmaður hans. Fyndin en alvarleg mynd„Mig langaði að gera mynd um alvarlegt viðfangsefni þar sem atburðir gerast hjá náunga sem horfir á lífið með gamansömum augum, fyndna mynd um viðfangsefni sem er vanalega ekki mjög fyndið,“ segir Apatow.

Hann vill ekki meina að það sé erfiðara að semja dramatísk atriði heldur en fyndin. „Jafnvel alvarlegustu augnablik lífsins eru fyndin. Mér finnst vera þunn lína á milli gríns og dramatíkur, að minnst kosti í mínu lífi. Ég hugsa aðallega um að semja eitthvað sem kemur frá hjartanu, þannig að ef ég sem bara um eitthvað sem er satt og rétt þá kemur það oftast út á fyndinn hátt.“ Slapp með skrekkinn í skjálftaAðalpersóna Funny People kemst afar nálægt dauðanum í myndinni. Apatow slapp sjálfur með skrekkinn þegar stór jarðskjálfti gekk yfir Kaliforníu árið 1993. „Ég hafði nýkeypt mér hús en ég flutti ekki strax inn í það því ég vildi mála það fyrst. Eftir jarðskjálftann skoðaði ég húsið og sá að þakið yfir svefnherberginu hafði hrunið og múrsteinar voru úti um allt,“ segir hann. „Ég hefði örugglega dáið ef ég hefði verið þarna þessa nótt. Ég kunni betur að meta lífið eftir að þetta gerðist, en bara í svona fjóra daga á eftir,“ segir hann og hlær. „Ég hef áhuga á fólki sem lærir lexíu en lætur lærdóminn síðan fjara út, einfaldlega vegna þess að það er auðveldara að lifa lífinu þannig. Það er að hluta til það sama og myndin gerir. Hún sýnir einhvern fara í gegnum reynsluna við að veikjast, fá síðan heilsuna á nýjan leik og vita ekki hvernig hann á að vinna úr því. Hann áttar sig ekki á því hver forgangsatriðin eiga að vera því að jafnvel þótt þú læknist af sjúkdómi ertu alltaf jafnklikkaður og áður. Þetta er mikil áskorun fyrir fólk og maður sér ekki oft fjallað um þetta í bíómyndum. Venjulega í myndum þá er náunginn leiðinlegur, veikist og verður síðan dýrlingur en hlutirnir eru bara flóknari en svo.“ Sandler kom á óvartAdam Sandler, sem fer með aðalhlutverkið, hefur framleitt og samið handritið að mörgum vinsælum myndum. Apatow er ánægður með hversu mikill fagmaður hann var. „Hann sagðist í byrjun ætla að leggja sjálfan sig í mínar hendur og láta mig um þetta. Hann stóð við loforðið og það kom mér mjög á óvart. Við höfum verið vinir í tuttugu ár en ég hef aldrei unnið svona náið með honum. Mér fannst flott hversu þroskaður hann er orðinn.“ Vill heimsækja ÍslandApatow er kvæntur einni af aðalleikkonum myndarinnar, Leslie Mann. Samt virðast hjónabönd ekki vera hátt skrifuð í myndum hans og hann hefur skýringu á því. „Ég myndi ekki borga fyrir að sjá bíómynd um tryggt hjónaband. Það kemur ekkert grín út úr hamingjusömum aðstæðum heldur miklu frekar úr vandamálum. Fólk spyr mig af hverju persónurnar í myndunum mínu séu vanþroskaðar karlrembur. Ég vil sýna fólk í kringumstæðum þar sem það veit ekki hvernig það á að haga sér. Venjulegt fólk er bara ekki skemmtilegt í bíómyndum.“

Spurður hvort hann hefði einhvern tímann áhuga á að heimsækja Ísland hafði Apatow þetta að segja: „Ég hefði mjög gaman af því að koma til Íslands. Ég hef beðið lengi eftir þessu boði,“ segir hann hress. „Eitt það skemmtilegasta við að gera svona myndir er að maður getur ferðast um heiminn og og kynnt myndir í mismunandi löndum. Ef það er einhver kvikmyndahátíð þarna sem þarf á ræðumanni að halda er ég til.“freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.