Lífið

Leiðir á bönkum og pólitík

besta tónleikabandið Bresku rokkararnir í Muse fengu NME-verðlaunin fyrr á árinu sem besta tónleikabandið. Fimmta plata sveitarinnar kemur út í næstu viku.nordicphotos/getty
besta tónleikabandið Bresku rokkararnir í Muse fengu NME-verðlaunin fyrr á árinu sem besta tónleikabandið. Fimmta plata sveitarinnar kemur út í næstu viku.nordicphotos/getty

Fimmta plata bresku hljómsveitarinnar Muse kemur út í næstu viku. Á tíu ára ferli sínum hefur hún sankað að sér verðlaunum, aðallega fyrir frábæra frammistöðu á tónleikum.

Ný plata Muse heitir The Resistance, og er sú fyrsta frá sveitinni í þrjú ár, eða síðan Black Holes and Revelations kom út. sú plata fékk mjög góðar viðtökur og var meðal annars tilnefnd til Mercury-verðlaunanna í Bretlandi og lenti í þriðja sæti hjá tímaritinu NME yfir bestu plötur ársins.

The Resistance lak á netið í gær og voru fyrstu viðbrögð netverja á þá leið að platan væri frábær. Á plötunni er rokk að hætti Muse en útsetningar þykja fjölbreyttari en áður. Sum laganna hljóma meira að segja eins og sjálfur Freddy Mercury hafi átt þar hlut að máli.

Strákarnir í Muse eru þaulvanir því að taka á móti viðurkenningum því á ferli sínum hafa þeir hlotið fimm evrópsk MTV-tónlistarverðlaun, fimm Q-verðlaun, tvenn Brit-verðlaun og svo mætti lengi telja. Flest tengjast þau tónleikum sveitarinnar, sem eru mögnuð upplifun eins og þeim sem sáu tónleika tríósins í Laugardalshöll árið 2003 er eflaust enn þá í fersku minni.

Muse var stofnuð í bænum Teignmouth í suðvesturhluta Englands árið 1994 af söngvaranum og píanóleikaranum Matthew Bellamy, bassaleikaranum Christopher Wolstenholme og trommaranum Dominic Howard. Í byrjun ferilsins lágu menn þeim félögum á hálsi fyrir að vera ódýr eftirlíking af Radiohead en smám saman hefur Muse vaxið ásmegin.

Hún hefur fundið sinn eigin hljóm og er orðin ein þekktasta hljómsveit Bretlandseyja. Blanda sveitarinnar af prog-rokki, sígildri tónlist og elektróník hefur fallið rækilega í kramið eins og verðlaunastaflinn segir til um og ekkert lát virðist vera á vinsældunum.

Forsprakkinn Bellamy segir að fyrsta smáskífulag nýju plötunnar, Uprising, sé eitt af lykillögunum. „Það er fyrsta lagið á plötunni og sýnir dálítið um hvað hún snýst, eða þennan leiða á þessum óþolandi banka- og stjórnmálamönnum sem eyðileggja allt sem þeir koma nálægt. Þeir eyða peningum í rugl og sprengja allt saman í loft upp,“ segir hann. „Þetta lag snýst um að taka af þeim völdin en skemmta sér við það í leiðinni. Að skemmta sér allan liðlangan daginn er eitthvað sem ég trúi á.“

Muse ætlar að fylgja plötunni eftir með þriggja vikna tónleikaferð um Bandaríkin sem hefst 24. september þar sem hún hitar upp fyrir risana í U2. Tónleikaferð um Evrópu með Muse í aðalhlutverki hefst síðan í Finnlandi 22. október og lýkur 4. desember á Ítalíu, þar sem The Resistance var einmitt tekin upp. freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.