Innlent

Þrjú hundruð manns taka þátt í hópmálsókn gegn bönkunum

Hátt í þrjú hundruð manns hafa ákveðið að taka þátt í hópmálsókn gegn bönkunum vegna lána sinna. Björn Þorri Viktorsson lögmaður segir marga íhuga alvarlega að hætta að borga af lánum sínum. Stefnt er að fyrsta prófmálið fari fyrir dómstóla strax í maí eða júní.

Lögmenn Laugardal hafa boðið fólki að hafa samband til að taka þátt í einhverskonar hópmálsókn gegn bönkunum vegna bæði verðtryggðra og krónutryggðra lána og myntkörfulána. Fyrir viku höfðu um 100 skráð sig í hópmálsóknina en þeir kynntu málið á fundi í síðustu viku en síðan þá hefur síminn verið rauðglóandi á lögmannstofunni.

Hátt í 300 manns nú ákveðið að taka þátt í hópmálsókninni en þar sem ekki er heimild fyrir hópmálsóknum í lögum hér á landi verður farin sú leið að fara í 12-15 prófmál til að tryggja efnislega niðurstöðu í hverjum flokk og fólk fái þannig fordæmi.

„Auk þess hefur hringt til okkar gríðarlegur fjöldi fólks sem er auðvitað í algjörlegum vandræðum og getur jafnvel ekki tekið þátt í verkefninu af því að þeir eiga engan pening," segir Björn Þorri Viktorsson lögmaður.

„Það er gríðarlega mikil umræða um að hætta bara að borga. Fólk skynjar mikið óréttlæti og það er miklu dýpri undiralda í þessari umræðu en ég hafði áttað mig á."

Björn Þorri segir að stefnt sé að fyrstu málin verði þingfest fyrir réttarhlé, það er fyrir lok maí.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×