Innlent

Gengur vel þrátt fyrir álag

valtýr sigurðsson
Hefur áhyggjur af álagi á embætti ríkissaksóknara.
valtýr sigurðsson Hefur áhyggjur af álagi á embætti ríkissaksóknara.

Mikið álag er á embætti ríkissaksóknara. Fjöldi ákærumála tvöfaldaðist á árunum 2005 til 2008. Þau voru 243 árið 2005 en 486 árið 2008. Fjöldi starfsmanna við embættið, fjórtán, hefur verið nánast óbreyttur síðastliðin tíu ár, þrátt fyrir þetta aukna álag.

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari segist hafa áhyggjur af stöðu embættisins. Hefur hann skrifað forsætisráðherra bréf þar sem hann lýsir áhyggjum af stöðunni. „Þetta gengur þó vel því hér vinnur úrvalsfólk," segir Valtýr.

Nefnir hann, sem dæmi um dugnað ákæruvaldsins, málið um mann sem nauðgaði konu í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði. Atvikið átti sér stað 21. maí. Málið barst Ríkis­saksóknara frá lögreglu 18. júní og daginn eftir var gefin út ákæra. Dómur gekk í málinu 10. júlí þar sem sakborningurinn hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsi.

„Þessi málsmeðferðartími, rúmar sjö vikur í heild, frá því verknaður er framinn og þar til dómur gengur, er til mikillar fyrir­myndar og ljóst að allir aðilar hafa lagst á eitt til að svona vel tækist til," segir Valtýr.

Gefa á út ákæru í nauðgunarmálum innan 70 daga, samkvæmt reglum Ríkissaksóknara. Ekki höfðu liðið þrjátíu dagar þar til ákæra var gefin út í þessu máli.

- vsp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×