Erlent

Íranar eru að verða bensínlausir

Óli Tynes skrifar

Sár skortur er á bílabensíni og díselolíu í Íran, einu mesta olíuframleiðsluríki heims. Þótt Íranar framleiði býsnin öll af hráolíu skortir þá hreinsistöðvar til þess að vinna úr henni.

Þeir verða því að flytja inn fjörutíu prósent af því bensíni sem þeir nota. Hrollur hefur farið um Írana við vangaveltur um að bensínsölubann verði sett á landið sem liður í refsiaðgerðum vegna kjarnorkuáætlunar þeirra.

Olíumálaráðherra Írans hafði í dag í hótunum við bensínframleiðendur. Hann sagði að þeir sem hættu að selja Íran bensín yrðu samstundis strikaðir út af viðskiptalista ríkisolíufélagsins.

Bensín er að hluta til niðurgreitt í Íran. Menn geta keypt sér hundrað lítra á mánuði af niðurtgreiddu bensíni. Vegna bágrar stöðu verður það líklega fært niður í fimmtíu og fimm lítra á næstunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×