Innlent

Saka Samfylkinguna um skoðanakúgun

Höskuldur Kári Schram skrifar

Hart var tekist á um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu á Alþingi í dag. Varaformaður Sjálfstæðisflokks sakar Samfylkinguna um að kúga Vinstri græna í málinu.

Segja má að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokks, hafi þjófstartað umræðunni um Evrópusambandsmálin í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Þorgerður spurði forsætisráðherra út í þau ummæli að ný staða væri upp í ríkisstjórninni verði þingsályktunartillaga um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu felld.

„Ég held að ég þurfi ekki að skýra það neitt nánar. ef að það það liggur fyrir að það verður ekki samþykkt að fara í viðræður um aðild að ESB þá setjast menn yfir það. stjórnarflokkarnir yfir það og meta þá stöðu sem upp er komin," svaraði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Þorgerður Katrín steig þá aftur í pontu og sagði: „Mér finnst þetta vond skilaboð til samstarfsflokksins. enn og aftur erum við að upplifa það. enn og aftur er samfylkingin að kúga vinstri hreyfinguna grænt framboð í hverju málinu á fætur öðru. í stóru málunum þá fá þingmenn stjórnarflokkanna ekki að tjá sig eins og þeir kjósa eða þeir vilja."

Þessu var Jóhanna ósammála og undirstrikaði það kröftuglega þegar hún sagði í púlti: „Virðulegi forseti, þessi síðustu orð háttvirts þingmanns eru hennar eigin orð sem ég tek ekki undir. Við erum ekki með neinar hótanir í garð okkar samstarfsflokks. það er alveg ljóst."

Svo bætti Jóhanna við: „Mér heyrist að háttvirtur þingmaður beri mikla umhyggju fyrir áframhaldandi samstarfi þessarar ríkisstjórnar þannig að við skulum vona að atkvæðagreiðsla verði með þeim hætti þannig að þessi ríkisstjórn starfi áfram."

Umræður tillöguna hófust klukkan fjögur og voru enn 19 þingmenn á mælendaskrá um klukkan sex. Allt bendir því til þess að atkvæðagreiðsla fari ekki fram fyrr en í fyrsta lagi á morgun eða miðvikudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×