Lífið

Meðlimur Pistols sér Hjálma

Glen Matlock á tónleikum Sex Pistols ásamt söngvaranum Johnny Rotten.nordicphotos/getty
Glen Matlock á tónleikum Sex Pistols ásamt söngvaranum Johnny Rotten.nordicphotos/getty

Bassaleikarinn Glen Matlock, einn af uppruna­legum meðlimum Sex Pistols, verður á meðal gesta á tónleikum hljómsveitarinnar Hjálma í Austurbæ á föstudag. „Hann er bara að koma á tónleikana. Það kom til tals að hann myndi klára plötu hjá mér í stúdíó­inu. Ætli hann sé ekki aðallega að koma í helgar­ferð og kíkja á stúdíóið,“ segir Kiddi í Hjálmum.

Matlock var meðhöfundur tíu af lögunum tólf á hinni frægu plötu Sex Pistols, Never Mind the Bollocks, Here‘s the Sex Pistols. Hann hætti í hljómsveitinni árið 1977 og við stöðu hans tók vandræðagemlingurinn Sid Vicious. Eftir að hafa verið í nokkrum lítt þekktum hljómsveitum gekk Matlock aftur til liðs við Pistols þegar sveitin kom saman á ný árið 1996. Síðan þá hefur hann spilað með sveitinni á tónleikaferðum.

Staðfest hefur verið að tveir góðkunningjar Hjálma spili með þeim á tónleikunum, sem eru haldnir vegna útkomu nýrrar heimildarmyndar um gerð fjórðu plötu sveitarinnar. Annar þeirra er Svíinn Mikael Svensson sem gekk til liðs við Hjálma árið 2005 en hætti nokkru síðar til að snúa sér að öðrum verkefnum, þar á meðal spilamennsku með sænsku söngkonunni Lykke Li. Hinn heitir Cat Coore, söngvari hljómsveitarinnar Third World, sem stjórnaði upptökum á plötunni á Jamaíka.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.