Lífið

Húðflúraði laglínu eftir pabba

Oddur er ákaflega stoltur af húðflúrinu sem er laglína úr To be Grateful en faðir Odds, Magnús Kjartansson, söng það á plötunni Lifun með Trúbroti.
Fréttablaðið/Anton
Oddur er ákaflega stoltur af húðflúrinu sem er laglína úr To be Grateful en faðir Odds, Magnús Kjartansson, söng það á plötunni Lifun með Trúbroti. Fréttablaðið/Anton

„Þetta var sjúklega vont, eiginlega bara ógeðslega sársaukafullt. Það er ekki gott að láta húðflúra á sér rifbeinin," segir Oddur Snær Magnússon. Hann lét nýverið húðflúra á sig laglínu úr hinu sígilda lagi Trúbrots, To be Grateful, sem faðir hans, Magnús Kjartansson, söng svo eftirminnilega á hljómplötunni Lifun.

Línan „Life is all around and it's my toy. And I'm living," sem Oddur kveður lýsa sér nokkuð vel, varð fyrir valinu. „Systir mín, Margrét Gauja, og Sara vinkona mín, voru mér til halds og traust og hughreystu mig þegar með þurfti," segir Oddur sem vinnur hjá íslenska tölvuleikjarisanum CCP.

Oddur segir þetta ekki hafa verið neina skyndihugdettu sem hafi verið gerð í einhverju flippi. „Nei, alls ekki, það leið bara vika frá því að hugmyndin vaknaði og þar til ég var kominn inn á húðflúr-stofu. Pabbi skrifaði upp nóturnar, svo var bara pantaður tími og látið verða af þessu," útskýrir Oddur en það var Tomas Asher, bandarískur húðflúrmeistari, sem hafði veg og vanda af verkinu hjá Reykjavik Ink. Aðspurður hvernig faðir hans hafi tekið þessu kveðst Oddur ekki hafa hugmynd um það, hann hafi ekki ennþá séð útkomuna. „En ég held að hann sé bara ánægður, vonandi skulda ég honum bara ekki stefgjöld."-fgg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.