Lífið

Nýjar áherslur í eyðimörk

Turner og félagar í Arctic Monkeys gefa á mánudaginn út sína þriðju plötu, Humbug.nordicphotos/getty
Turner og félagar í Arctic Monkeys gefa á mánudaginn út sína þriðju plötu, Humbug.nordicphotos/getty

Þriðja plata ensku hljómsveitarinnar Arctic Monkeys, Humbug, kemur út á mánudaginn. Hennar hefur verið beðið með mikilli eftir­væntingu enda er sveitin talin ein sú efnilegasta í rokkinu í dag.

Síðustu tvær plötur Arctic Monkeys, Whatever People Say I Am, That’s What I’m Not og Favourite Worst Nightmare, höfðu yfir sér ungæðislegan blæ þar sem kraftur­inn var í fyrirrúmi. Á Humbug kveður við nokkuð breyttan og fágaðri tón. Hljómsveitin réð Josh Homme, forsprakka eyðimerkurrokkaranna í Queens of the Stone Age og sömuleiðis liðsmann Eagles of Death Metal, sem upptökustjóra í tilraun til að breyta aðeins um áherslur.

Strákarnir ferðuðust alla leið frá Sheffield í eyðimörkina í Kaliforníu þar sem upptökurnar fóru fram í Rancho De La Luna-hljóðverinu. „Hljóðverið var heima hjá Dave Catching úr Eagles of Death Metal. Hann bjó þarna á meðan við vorum að taka upp og svaf þar allar nætur. Þetta var dálítið skrítið en þetta virkaði,“ sagði trommarinn Matt Helders í viðtali við tímaritið Clash.

Söngvarinn Alex Turner segir að gítarleikurinn sé meira áberandi á Humbug en áður. „Josh hvatti okkur til að spila gítarsóló. Það er nokkuð sem við höfum ekki lagt mikla áherslu á en hann og aðstoðar­maðurinn hans, Alain Johannes, voru ótrúlegir. Alain er örugglega besti gítarleikari sem ég hef séð og þeir voru mjög hvetjandi,“ sagði hann. Homme hvatti strákana til að hlusta á hljóm­sveitina 13th Floor Elevators með Roky Erickson í fararbroddi, en hún er í miklu uppáhaldi hjá Primal Scream. Einnig hlustuðu þeir mikið á Jimi Hendrix og Cream í von um að ná fram rétta hljóminum.

Strákarnir yfirgáfu þó ekki algjörlega rætur sínar við gerð plötunnar því eftir að tökum lauk í Kaliforníu héldu þær áfram í New York þar sem James Ford, sem tók upp fyrstu tvær plöturnar, var við stjórnvölinn.

Svo virðist sem hinn breytti hljómur Arctic Monkeys, sem sumir gagnrýnendur segja að sé þroskaður, hafi hitt í mark því Humbug hefur fengið prýðilega dóma að undanförnu. Til að mynda fékk hún fjórar stjörnur af fimm mögulegum hjá hinum virtu tímaritum Q, Mojo og Rolling Stone.

Fram undan hjá strákunum er spilamennska á Reading/Leeds-hátíðunum á Englandi í lok ágúst, þar sem Homme og félagar í Eagles of Death Metal verða einnig á meðal gesta. Eftir það er ferðinni heitið í tónleikaferð til Bandaríkjanna. freyr@frettabladid






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.