Innlent

Ríkið byrjar að selja kvóta - sáttarrof segir LíÚ

Ríkið ætlar að selja viðbótarkvóta í skötusel til ágóða fyrir ríkissjóð, en ekki að úthluta til þeirra sem hafa aflareynslu, samkvæmt frumvarpi sem sjávarútvegsráðherra lagði fram á Alþingi í dag. Sáttarrof, segir talsmaður útvegsmanna.

Grundvöllur kvótakerfisins hefur verið sá að þeir fái kvótann sem áður veiddu fiskinn. Sú regla á ekki að gilda þegar sjávarútvegsráðherra deilir út 2.000 tonna skötuselskvóta. Boðuð er ný aðferð. Ríkið ætlar að selja viðbótarkvótann. Verðmiðinn er meira að segja kominn: 120 krónur kílóið. Ágóðinn fer í ríkissjóð.

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra segir að þeir sem höfðu aflamark áður haldi því en viðbótinni verði úthlutað með þessum hætti. Ráðherrann gerir þó ekki mikið úr stefnubreytingunni og leggur áherslu á sérstöðu skötusels við landið. Ekki sé vitað um útbreiðslu hans við landið og þetta sé ákvæði til bráðabirgða.

Útvegsmenn telja hins vegar að með þessu gangi ráðherra gegn tveggja vikna yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að setja endurskoðun fiskveiðikerfisins í sáttafarveg. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að þarna sé í raun verið að fara svokallaða fyrningaleið með eina tegund. Það sé sáttarrof sem ekki sé hægt að lifa við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×