Innlent

Höskuldur biðst ekki afsökunar

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson. Mynd/Anton Brink
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, ætlar ekki að biðja Þórunni Sveinbjarnardóttur, þingmann Samfylkingarinnar og fyrrverandi umhverfisráðherra, afsökunar vegna orða sem hann lét falla á þingfundi í vikunni. Eðlilegra væri að Þórunn bæði sig afsökunar.

Þórunn krafðist afsökunarbeiðni af Höskuldi Þórhallssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, við upphaf þingfundar í gær. Höskuldur hafi sagt í þingræðu í fyrradag að í tíð sinni sem umhverfisráðherra hefði Þórunn fellt ólöglegan úrskurð um sameiginlegt umhverfismat á Bakka og vísað í álit Umboðsmanns Alþingis máli sínu til stuðnings. Þórunn neitaði því hins vegar að Umboðsmaður hafi gefið frá sér slíkt álit.

„Öll þau ár sem ég hef verið í þessum sal hefur mér aldrei verið jafn þungt fyrir brjósti og nú," sagði Þórunn. Hún sagði að Höskuldur hlyti að draga ummæli sín til baka og leyfa sannleikanum að njóta sín í sal Alþingis.

Höskuldur fjallar um málið á heimasíðu sinni í dag. Hann segir að í áliti umboðsmanns Alþingis frá 29. desember 2008 fari ekki milli mála að umboðsmaður komist að þeirri niðurstöðu að Þórunn hafi brotið lög.

„Að mínu mati hefði verið eðlilegt að þingmaðurinn sem sakaði mig um lygar hefði komið fram og beðið mig afsökunar á þeim orðum. Það sem mér finnst hins vegar lítilmannlegt er að þingmaðurinn reyndi í ræðu að leggja mér orð í munn og gefa í skyn að ég hafi sagt að umboðsmaður Alþingis hafi aldrei gefið álit sitt á úrskurðinum um hið sameiginlega mat. Það sagði ég hvergi," segir Höskuldur.




Tengdar fréttir

Tilfinningahiti í sölum Alþingis

Þórunn Sveinbjarnardóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, krafðist afsökunarbeiðni af Höskuldi Þórhallssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, en hann hafi sagt í þingræðu í gær að í tíð sinni sem umhverfisráðherra hefði Þórunn fellt ólöglegan úrskurð um sameiginlegt umhverfismat á Bakka og vísað í álit Umboðsmanns Alþingis máli sínu til stuðnings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×