Innlent

Tugir manna yfirheyrðir í máli Baldurs

Baldur Guðlaugsson.
Baldur Guðlaugsson.
Um tugur manna hefur verið yfirheyrður í tengslum við rannsókn sérstaks saksóknara í máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara, þar sem gagnrýni Karls Axelssonar, lögmanns Baldurs, er vísað á bug.

Í opnu bréfi sem birtist í Morgunnblaðinu í dag segir Karl að sér ofbjóði sú meðferð sem Baldur hefur verið látinn sæta undanfarið en hann er grunaður um að hafa brotið lög um innherjaviðskipti þegar hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum rétt fyrir hrun. Karl gagnrýnir ítrekaða leka hjá embætti sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlitinu.

Í tilkynningu Ólafs Þórs segir að það sé ekkert sem bendi til þess að starfsmenn embættisins hafi komið á framfæri upplýsingum, hvorki um þetta mál né nokkurt annað sem er til meðferðar hjá sérstökum saksóknara.

Ólafur Þór segir að Fjármálaeftirlitið hafi tekið tiltekna mál til rannsóknar 11. nóvember 2008 og að því hafi verið vísað til embættis sérstaks saksóknara 9. júlí síðastliðinn.

Ólafur Þór HaukssonMynd/Stefán Karlsson
„Um tugur manna hefur verið yfirheyrður í tengslum við rannsókn málsins. Óskað var eftir að eignir yrðu kyrrsettar í tengslum við rannsókn málsins með beiðni til sýslumanns 11. nóvember 2009 og kyrrsetningarmálinu lauk 13. nóvember. Þá var kyrrsetningin tilkynnt í samræmi við lög um kyrrsetningu og lögbann. Umfjöllun fjölmiðla um kyrrsetningu eignanna hófst að þessu ferli loknu. Rannsókn málsins var því orðin á vitorði fjölda manna utan embættis sérstaks saksóknara og því hæpið að fullyrða að um sé að ræða leka frá embættinu," segir í tilkynningu Ólafs Þórs.

Ólafur Þór segir að Lögmæti rannsóknarinnar sé unnt að bera undir dómstóla sem taka afstöðu til réttmæti hennar. Það verði ekki gert í fjölmiðlum.

Vegna rannsóknarhagsmuna tjáir embættið sig ekki frekar um málið.


Tengdar fréttir

Lögmanni Baldurs ofbýður vinnubrögð sérstaks saksóknara

Karl Axelsson, lögmaður Baldurs Guðlaugssonar fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, skrifar í dag opið bréf til Ólafs Haukssonar, sérstaks saksóknara. Bréfið er birt í Morgunblaðinu og segir Karl að sér ofbjóði sú meðferð sem Baldur hefur verið látinn sæta undanfarið en hann er grunaður um að hafa brotið lög um innherjaviðskipti þegar hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum rétt fyrir hrun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×