Innlent

Tæknileg útfærsla hvenær þjóðin greiðir atkvæði um ESB

Vinstri grænir virðast tilbúnir að fallast á kröfu Samfylkingarinnar um að farið verði í aðildarviðræður við Evrópusambandið án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra segir það samningsatriði og spurningu um tæknilega útfærslu á hvaða stigi leitað verði eftir vilja þjóðarinnar og nú sé tími til að opna allar gáttir í þessum efnum.

Í kosningaþáttum sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi hertu forystumenn Samfylkingarinnar á þeirri kröfu sinni að aðildarviðræður yrðu hafnar við Evrópusambandið án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu. Ögmundur Jónasson hefur ekki áhyggjur af slíkum úrslitakostum og segir það samningsatriði hvernig leitað verði eftir vilja þjóðarinnar. Allar útfærslur komi til greina, að sögn Ögmundar, ekki eigi að loka neinum dyrum heldur opna allar gáttir í þessum efnum.

Markmiðin séu skýr; að reisa Ísland við, en varðandi Evrópumálin þá ætli Vinstri grænir að láta þjóðina skera úr um það. Hvernig það verði gert sé bara framkvæmdaatriði sem flokkarnir komi sér saman um.

Spurður beint hvort það sé ekki krafa af hálfu Vinstri grænna að þjóðaratkvæðagreiðsla verði áður en gengið sé til viðræðna, svarar Ögmundur:

"Þetta eru bara tæknilegar útfærslur. Það sem máli skiptir er að þjóðin skeri úr um þetta."

Spurður um orðróm þess efnis að Samfylkingin og Vinstri grænir séu þegar byrjaðir í stjórnarmyndunarviðræðum svarar Ögmundur að hann hafi bara alltaf reiknað með því að það yrði framhald á, ef flokkarnir fengju meirihluta. Kveðst þó opinn fyrir fleirum. Sér hafi líkað vel félagshyggjutónninn í Framsókn á undanförnum vikum og mánaðum. Sjálfstæðisflokkurinn er þó útilokaður.

"Sjálfstæðisflokkurinn er ekki valkostur að loknum þessum kosningum," segir Ögmundur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×