Erlent

Umfangsmikil leit að flugvél Amundsen

Roald Amundsen.
Roald Amundsen.

Norski herinn undirbýr nú umfangsmikla leit að flugvél sem pólfarinn Roald Amundsen hvarf með fyrir áttatíu og einu ári. Amundsen var þá í björgunarleiðangri.

Amundsen stýrði Suðurskautsleiðangrinum 1910 til 1912. Hann varð fyrstur á Suðurpólinn á undan keppinaut sínum, Robert Falcon Scott. Amundsen varð einnig fyrstur á Norðurpólinn og fór fyrir fyrsta leiðangrinum norðvesturleiðina frá Atlantshafi til Kyrrahafs.

Í júní 1928 fór Amundsen í sjóflugvél sinni ásamt fimm öðrum frá Tromsø til Svalbarða í leit að ítalska landkönnuðinum Umberto Nobile og fylgdarliði hans. Talið var að loftskip hans hefði brotlent á svæðinu. Flugvél Amundsens kom aldrei fram á Svalbarða og lík Amundsens aldrei fundist.

Nú ætlar konunglegi norski herinn að finna flak flugvélarinnar. Leitað verður undan strönd Bjarnareyjar en árið 1933 fundu veiðimenn þar brak sem talið er úr vélinni. Talið er að flugvélin hafi hrapað í vondu veðri og flotið í Barentshafi í einhvern tíma áður en hún sökk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×