Innlent

Mega veiða 150 þúsund tonn af þorski á næsta ári

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Þorskaflamarkið verður 150 þúsund tonn næsta fiskveiðiár sem hefst 1. september næstkomandi. Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tilkynnti þetta fyrir stundu.

Fyrir ári síðan var aflamarkið í þorski 130 þúsund tonn en Einar K. Guðfinnsson jók aflamarkið upp í 160 þúsund tonn í janúar. Aflamarkið í ýsu verður 63 þúsund tonn á næsta ári en var áður 93 þúsund tonn. Aflamarkið er svipað í öðrum fisktegundum og verið hefur.

Fyrir utan ýsuna er mestur munur á úthlutuðum tegundum milli ráðgjafar Hafrannsóknarstofnunnar og ráðherrans í karfa og ufsa. Ráðherra leyfir að veiða meir en 10.000 tonn af karfa umfram ráðgjöf og 15.000 tonn af ufsa umfram ráðgjöf.

Þegar Jón Bjarnason tilkynnti um aflamarkið sagði hann að vel kæmi til greina að endurskoða ákvörðunina síðar ef fiskifræðilegar forsendur yrðu fyrir því. Þá sagðist Jón Bjarnason hafa verulegar áhyggjur af þeirri ósátt sem væri um aflamarkskerfið í þjóðfélaginu. Ætlaði hann að gera sitt til að ná meiri sátt.

Meðal atriða sem Jón Bjarnason nefnir í þessu atriði er frekari takmörkun á framsali aflaheimilda, aukningu á veiðiskyldu og að meira verði fullunnið af afla hér heima en nú er.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×