Innlent

Greiðslur töfðust en eru í skilum

Kjartan Þór Eiríksson
Kjartan Þór Eiríksson

Þróunarfélagið á Keflavíkurflugvelli og Háskólavellir hafa endursamið um greiðslur fyrir kaup á húsum á gamla hersvæðinu. Háskólavellir áttu að greiða Þróunarfélaginu, sem er í eigu ríkisins, 4,3 milljarða um síðustu áramót, en samningurinn hljóðar alls upp á 13,5 milljarða. Háskólavellir hafa enn ekki greitt upphæðina, en munu greiða um tvo milljarða á næstunni.

„Ég held að þetta verkefni sé í fínum málum. Auðvitað höfum við þurft að liðka til með greiðslurnar, enda aðgengi að lánsfé erfiðara,“ segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins.

Gott sé að samningar geti haldið með því að hliðra til í nokkra mánuði í erfiðu efnahagsástandi. Það sé í allra hag að verkefnið haldi áfram. Kjartan tekur fram að Háskólavellir greiði vexti af peningunum, og að Þróunarfélagið hafi nú þegar greitt milljarð í hagnað í ríkissjóð. Útlit sé fyrir að þær greiðslur aukist töluvert á þessu ári.

Yngvi Jónasson, framkvæmdastjóri Háskólavalla, segir jafnframt að ekki stefni í nein vandræði vegna vanskila. Búið sé að tryggja milljarðana tvo en verið sé að ganga frá pappírsvinnunni. Greitt verði á næstu vikum og mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×