Innlent

17 þingmenn hafa frest út daginn

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Mynd/Anton Brink
17 þingmenn hafa frest út daginn til að upplýsa um fjárhagslega hagsmuni sína og trúnaðarstörf utan þings. Þar á meðal eru tveir ráðherrar Vinstri grænna og níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Á fimmtudaginn höfðu 28 þingmenn af 63 upplýst um hagsmunatengsl sín en síðan hafa 18 þingmenn skráð upplýsingarnar.

Fjármál stjórnmálaflokka, einstakra stjórnmálamanna og hagsmunatengsl hafa lengi verið mikið til umræðu. Forsætisnefnd Alþingis samþykkti í mars reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum þeirra utan þings. Reglurnar tóku gildi 1. maí en þingmenn ákveða sjálfir hvort þeir upplýsi um hagsmuni sína. Hægt er að nálgast upplýsingarnar á vef Alþingis.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, segir að þingmönnum hafi verið gefinn frestur til og með 15. júní, sem er í dag, til að skrá umræddar upplýsingar.

Ásbjörn á hlut í þremur fyrirtækjum

Þegar nýjar upplýsingar, það er frá þingmönnum sem upplýst hafa um hagsmuni sína frá því á fimmtudaginn, eru skoðaðar kemur í ljós Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum ráðherra á 1,8 milljón stofnfjárhlut í Sparisjóði Bolungarvíkur. Flokksbróðir hans Ásbjörn Óttarsson á allt að helmings hlut í fyrirtækjunum Nesver, Hlíðarfoss og Fiskmarkaður Íslands. Þá á Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, 10% hlut í Sero sem framleiðir bragðefni með ensím. Verðmæti hlutarins er óljóst.

Þiggja laun samhliða þingmennsku

Tveir Þingmenn Samfylkingarinnar þiggja laun fyrst um sinn vegna fyrri starfa sinna. Valgerður Bjarnadóttir gegnir hálfu starfi sviðsstjóra innkaupa á Landspítala fram til júlíloka. Þá þiggur Sigmundur Ernir Rúnarsson biðlaun út sumarið eftir brotrekstur fjölmiðlafyrirtækinu 365. Á sama tímabili hefur hann afnot af bifreið, fartölvu og síma í eigu fyrirtækisins.


Tengdar fréttir

Ráðherra á milljónahlut í Byr

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, er hluthafi í Byr en hlutur hans samkvæmt stofnfjáreign er 5,6 milljónir króna. Þetta kemur fram þegar rýnt er í upplýsingar um hagsmunatengsl þingmanna. Hefð virðist hafa myndast fyrir því að ráðherrar sem heita Árni eigi hlut í Byr því nafni hans Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, á einnig hlut í sparisjóðnum.

27 þingmenn hafa upplýst um hagsmunatengsl sín

27 af 63 þingmönnum hafa upplýst um fjárhagslega hagsmuni sína og trúnaðarstörf utan þings. Þar á meðal eru allir þingmenn Framsóknarflokksins og fimm ráðherrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×