Innlent

Íslensk kona leitar að staðgöngumóður

Telma Tómasson skrifar

„Það er okkar stærsta ósk að eignast annað barn," segir íslensk kona sem leitar að staðgöngumóður hér á landi til að ganga með barn fyrir sig. Staðgöngumæðrun er bönnuð á Íslandi, en nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytisins fjallar nú um lögleiðingu þess.

Með staðgöngumæðrun er átt við að kona gangi með barn fyrir par og láti það svo af hendi eftir fæðingu. Fósturvísirinn sem notaður er geymir kynfrumur foreldranna og er fóstrið því líffræðilega alls ótengt staðgöngumóðurinni. Vitað er að íslensk pör hafa um árabil farið til landa þar sem staðgöngumæðrun er leyfð til að eignast barn með aðstoð íslenskra eða erlendra staðgöngumæðra. Hjón sem eru í slíkum hugleiðingum leita nú að konu hér á landi sem er tilbúin til þess að ganga með barn þeirra.

 

„Hún þarf ekkert endilega að vera íslensk, en hún þarf helst að vera á Íslandi svo ég geti fylgst með. Farið með henni í skoðun, heyrt hjartsláttinn og allt þetta," segir konan um staðgöngumóðurina sem hún myndi vilja.

 

Konan hefur um nokkurt skeið auglýst árangurslaust eftir staðgöngumóður, en sjálf getur hún ekki gengið með barn, því leg hennar var fjarlægt eftir að hún greindist með krabbamein. Hún og maður hennar eiga nokkra fósturvísa í geymslu og vilja reyna að eignast sitt eigið barn, áður en þau hugleiða ættleiðingu. Þau segjast mæta miklum skilningi hjá fjölskyldu, vinum og sérfræðingum.

 

Nánar er fjallað um málið í Íslandi í dag, en þar segir konan frá leit sinni að staðgöngumóður og hvers vegna hún og maður hennar eru reiðubúin til að feta svo erfiða og kostnaðarsama leið við að stækka fjölskylduna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×