Innlent

Fundaði um jarðvarma við forseta Filippseyja

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Stefán Lárus ásamt páfa.
Stefán Lárus ásamt páfa.
Stefán Lárus Stefánsson sendiherra afhenti í síðustu viku Gloriu Macapagal-Arroyo, forseta Filippseyja, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands á Filippseyjum. Hann hefur aðsetur í Tókýó.

Af því tilefni átti sendiherra fund með forsetanum og ræddust þau einkum við um jarðvarmanýtingu. Filippseyjar er næststórtækasta ríki heims á því sviði á eftir Bandaríkjunum.

Varð forsetanum tíðrætt um samstarf íslenska fyrirtækisins Envent og filippínska fyrirtækisins Bilirian Geothermal um nýtingu jarðvarma á filippínskri grund. Lögð var á það áhersla að í þessu verkefni myndi íslenskt hugvit njóta sín, sérstaklega þegar kemur að auðlindastjórnun og fjölþættri nýtingu jarðvarma, en á Filippseyjum er jarðhitinn nær eingöngu nýttur til rafmagnsframleiðslu.

Stefán hitti einnig utanríkisráðherra Filippseyja auk samgönguráðherra, vara-orkumálaráðherra og forseta verslunarráðs landsins. Á fundunum var víða komið við; t.d. voru viðskipti landanna rædd, hugsanlegur loftferðasamningur og einnig Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna sem vara-orkumálaráðherrann hefur dálæti á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×