Innlent

Tillaga um innri endurskoðun borgarinnar

Ólafur F. Magnússon.
Ólafur F. Magnússon.

Borgarfulltrúar Vinstri grænna og Ólafur F. Magnússon munu í dag á borgarstjórnarfundi leggja fram sameiginlega tillögu sem felur innri endurskoðun borgarinnar að yfirfara og birta upplýsingar um fjárstyrki vegna þátttöku þeirra borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa, sem kjörnir voru í sveitarstjórnar-kosningunum 2006 og sem þess óska, í prófkjörum og forvölum.

Í tillögunni segir að hið sama gildi um fjárstyrki vegna þátttöku annarra fulltrúa, sem kjörnir hafa verið í ráð og nefndir á vegum borgarinnar á yfirstandandi kjörtímabili, í prófkjörum og forvölum. Þá segir að þeir sem þess óska geti beðið um samsvarandi rannsókn lengra aftur í tímann.

Slík beiðni til innri endurskoðunar feli í sér samþykki viðkomandi á ítarlegri rannsókn, þar á meðal rofs á bankaleynd. Rannsókninni verði flýtt eins mikið og unnt er. Í greinargerð með tillögunni segir að æra kjörinna fulltrúa í borgarstjórn, Alþingi og sveitarstjórnum víðs vegar á landinu hafi beðið hnekki í „ölduróti almenns siðleysis tengdu hruni íslenska fjármálakerfisins og fregnum af risastyrkjum til stjórnamálaflokka."

Ljóst sé að ákveðnir aðilar hafi svifist einskis í takmarkalausri sókn eftir skammtímagróða. Þá segir enn fremur í greinargerðinni að engin ásökun í garð borgarfulltrúa eða annarra kjörinna fulltrúa borgarstjórnar felist í tillögunni. „Þvert á móti er tilgangur hennar að kjörnum fulltrúum gefist kostur á að hreinsa nafn sitt og endurheimta þannig það traust sem borgarstjórn er nauðsynleg."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×