Lífið

Þóra gerir sjónvarpsþætti um Hrunið

Þóra Arnórsdóttir gerir fjóra heimildarmyndaþætti eftir Hruni Guðna Th. Jóhannessonar. Bók stjörnusagn­fræðingsins hefur selst eins og heitar lummur og hefur setið í efsta sæti bóksölulista Eymundsson í þrjár vikur.
Þóra Arnórsdóttir gerir fjóra heimildarmyndaþætti eftir Hruni Guðna Th. Jóhannessonar. Bók stjörnusagn­fræðingsins hefur selst eins og heitar lummur og hefur setið í efsta sæti bóksölulista Eymundsson í þrjár vikur.

„Jú, þetta er rétt, þetta er í samvinnu við Guðna Th. Jóhannesson og verður byggt á bókinni hans,“ segir sjónvarpskonan Þóra Arnórsdóttir sem er að fara að gera heimildar­þáttaröð um íslenska efnahagshrunið. Þóra neitar því ekki að þetta sé krefjandi verkefni en hún sé full tilhlökkunar að takast á við það. Ráðgert er að tökur og vinnsla hefjist í ágúst en þangað til mun sjónvarpskonan liggja yfir bók Guðna í sólinni á Ítalíu þar sem hún er nú í sumarfríi.

Um er að ræða fimm þátta röð. Fjórir fyrstu þættirnir verða byggðir á bókinni en sá fimmti fjallar um hvað hefur gerst síðan bókin kom út. Þóra segir stefnt að því að frumsýna fyrsta þáttinn hinn 6. október en þá verður nákvæmlega ár liðið síðan Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað Guð að blessa þjóðina í eftirminnilegu ávarpi.

Guðni sjálfur var ákaflega hrifinn af þessari hugmynd og telur bráðsnjallt að fá sjónrænan vinkil á bókina. „Hún er náttúrlega mikið byggð á sjónvarpsviðtölum, fréttamannafundum og ávörpum. Það var náttúrlega dálítið dramatísk atburðarás í kringum þetta og mikið af myndefni til,“ segir Guðni. Hann var að sjálfsögðu ákaflega ánægður með söluna á bókinni en sagðist þó ekki vera stoppaður í Hagkaupum af fólki sem vildi deila með honum kenningum sínum um hrunið. „Ef maður vill verða heimsfrægur á Íslandi er sagnfræði ekki rétta leiðin.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.