Erlent

Krókódílar afvegaleiddir með segulstáli

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Vísindamenn í Flórída gera nú tilraunir með nýstárlegar aðferðir til að halda krókódílum frá íbúðabyggð.

Hjá krókódílasafninu í Chiapas í Flórída starfa nokkrir hugmyndaríkir náungar. Þeir vita að meðal þess sem krókódíll notar til að komast leiðar sinnar er segulsvið jarðar sem er dýrinu eins konar áttaviti. Í suðurhluta Flórída er talið að um 2.000 krókódílar séu á vappi og sundi hingað og þangað og oftar en ekki í eða við mannabyggð.

Þessu hafa fylgt slys og einstaka árásir á fólk en oftast flytja sérfræðingar krókódíla burt frá byggð þegar þeir hafa náð ákveðinni stærð. Þeir eru um leið merktir svo hægt sé að henda reiður á því hverjir þeirra snúi til baka. Slíkar endurkomur eiga sér stað annað slagið og það er það sem fræðingarnir hjá krókódílasafninu vilja fyrirbyggja. Þeir hyggjast því bregða á það ráð að festa segulstál við höfuð þeirra krókódíla sem fluttir eru í burtu og sjá hvort þetta nægi til að brengla náttúrulega áttavitann þeirra þannig að þeir hreinlega rati ekki aftur til mannabyggðar.

Nú er bara að sjá hvort þetta hrífi og flórískt dreifbýli verði krökkt af rammvilltum krókódílum með áfestum segulstálbút.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×