Innlent

Fyrirtæki vega þungt í erlendum skuldum

Frá fyrri fundi AGS Franek Rozwadowski, sendifulltrúi AGS á Íslandi, og Marks Flanagan, yfirmaður sendinefndar AGS á Íslandi, sitja fyrir svörum á blaðamannafundi. Sendinefndin skilaði í gær áfangaskýrslu sinni eftir dagstöf til að Seðlabanki Íslands gæti farið betur yfir upplýsingar sem fram áttu að koma. Fréttablaðið/Stefán
Frá fyrri fundi AGS Franek Rozwadowski, sendifulltrúi AGS á Íslandi, og Marks Flanagan, yfirmaður sendinefndar AGS á Íslandi, sitja fyrir svörum á blaðamannafundi. Sendinefndin skilaði í gær áfangaskýrslu sinni eftir dagstöf til að Seðlabanki Íslands gæti farið betur yfir upplýsingar sem fram áttu að koma. Fréttablaðið/Stefán

Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru hærri en áður hafði verið talið en þó ekki úr takti við það sem gerist í öðrum þróuðum ríkjum. Þetta kemur fram í áfangaskýrslu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) vegna fyrstu endurskoðunar efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og birt var í gær.

Skuldabyrðin sem bæst hefur við frá síðasta mati nemur 92 prósentum af áætlaðri þjóðarframleiðslu þessa árs, eða sem nemur 10,9 milljörðum dollara, eða um 125 milljörðum króna.

Að mati skýrsluhöfunda þýði þetta að skuldirnar nái hámarki í 310 prósentum af þjóðarframleiðslu á árinu, eða nálægt 37,1 milljarði dollara, eða 4.600 milljörðum króna.

Aukningin er til komin vegna endurmats á skuldbindingum hins opinbera og bankanna og nýrra upplýsinga um skuldbindingar íslenskra stórfyrirtækja, að því er fram kemur í skýrslunni.

Í umræðum Marks Flanagan, yfirmanns sendinefndarinnar, og Franeks Rozwadowski, fulltrúa sjóðsins hér á landi, um áfangaskýrsluna og einnig voru birtar í gær, kemur fram að þótt skuldir þjóðarinnar séu miklar þá séu þær ekki óyfirstíganlegar. Í inngangsorðum sagði Flanagan að skuldir þjóðarinnar hefðu verið „álagsprófaðar“ og niðurstaða sjóðsins hafi verið sú að þær væru sjálfbærar og á traustri niðurleið. „Ég vil líka benda á að stór hluti þeirra takmarkast við þrönga fyrirtækjaafkima og því afmarkað vandamál fyrir hlutaðeigandi fyrirtæki, en ekki fyrir landið í heild.“

Þá áréttar Flanagan að AGS hafi ekki gert kröfu um að Icesave-deilunni yrði lokið áður en kæmi að fyrstu endurskoðun efnahags­áætlunarinnar sem nú er lokið. Hins vegar hafi deilan orðið til þess að fjármögnun lánapakka til Íslands hafi verið ótrygg og því hafi áætlunin tafist. Greiðsla á öðrum hluta lánafyrirgreiðslu AGS gangi því í gegn núna, en upphæðin nemur nálægt 167,5 milljónum dollara, eða tæplega 21 milljarði króna. Heildargreiðslur nemi því nú rúmlega milljarði Bandaríkjadala.

Þá árétta fulltrúar AGS að gjaldeyrishöft sem hér eru forði því að stýrivextir þyrftu að vera enn hærri til að styðja við gengi krónunnar, jafnvel 40 til 50 prósent. Núna þurfi að halda áfram að styðja við efnahag heimila og byggja upp og endurskipuleggja fyrirtæki, en frekari áföll þar gætu skilað sér í gjaldþrotum fólks sem missir vinnuna. Þá sé lag að hefja varfærið afnám gjaldeyrishafta.

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×