Innlent

Aldrei fleiri í hvalaskoðun frá Húsavík

Hvalaskoðun frá Húsavík hefur slegið öll fyrri met en um fimmtíu þúsund ferðamenn sigldu út á Skjálfanda í sumar til að sjá stærstu dýr jarðar. Hvalaskoðunartímabilinu lauk formlega í dag.

Jafnvel nú um miðjan október voru enn að koma ferðamenn til Húsavíkur til að fara í hvalaskoðun. Það var hins vegar í dag sem tímbilinu lauk formlega og nú tekur við hálfs árs hlé fram í miðjan apríl. Menn eru hæstánægðir með sumarið.

Hörður Sigurbjarnarson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar, segir að aukningin hafi verið mjög góð. Sumarið hafi slegið öll met. Sömu sögu segir Stefán Guðmundsson hjá Gentle Giants en samtals gerðu hvalaskoðunarfyrirtækin tvö út átta skip í sumar og fengu uppundir þúsund farþega á dag þegar annirnar voru mestar.

Þetta kallaði á mikla þjónustu og mörg störf. Þegar mest var í sumar hjá Norðursiglingu störfuðu þar 80 manns, bæði í áhöfnum og á veitingastað fyrirtækisins. Hvalasafnið finnur einnig rækilega fyrir auknum gestafjölda, 27 þúsund í ár, 30% fleiri en í fyrra.

Og nú vantar fleiri og stærri báta og er Norðursigling í því skyni að gera upp 100 lesta eikarbát, sem áður þjónaði sem fiskiskip frá Ólafsvík, sem áformað er að taka í notkun fyrir næsta sumar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×