Innlent

Segist ekki hafa hótað ræðumanni á borgarafundi

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur, sem hélt framsögu á borgarafundinum í Háskólabíói í gær, sagði í ræðu sinni að ónefndur ráðherra hefði hringt í sig fyrir fundinn og hvatt sig til þess að gæta orða sinna á fundinum vegna starfsheiðurs síns og framamöguleika.

Margir á fundinum tóku því sem svo að um Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra væri að ræða en Sigurbjörg var ráðgjafi í heilbrigðisráðuneytinu á síðasta ári. Hún var einnig meðal umsækjenda um starf forstjóra Sjúkratryggingastofnunar.

Í samtali við fréttastofu segist Sigurbjörg ekki vilja gefa upp hvaða ráðherra hefði hringt í sig og Guðlaugur Þór þvertekur fyrir að hann hafi verið sá sem hringdi. Hann segist ekki hafa talað við Sigurbjörgu í marga mánuði. „Ég vissi ekki einu sinni að þessi kona væri að tala á þessum fundi," segir Guðlaugur í samtali við fréttastofu.

„Nei ég segi ekkert meira um þetta," segir Sigurbjörg aðspurð hvort hún hafi átt við Guðlaug Þór.

„Það er ekkert aðal málið hver þetta var. Þetta snýst bara um hegðun ráðherra og svona eiga menn ekki að haga sér."

Aðspurð hvort hún hafi litið á símtalið sem hótun segir hún svo ekki vera heldur hafi þetta frekar verið aðvörun til sín.

Hún segist vilja halda þessari umræðu frá persónulegum eltingarleik og hún ætli ekki að fara í einhverjar nornaveiðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×