Innlent

Býður sig fram gegn formanni

Hlynur Hallsson
Hlynur Hallsson

Hlynur Hallsson sem stefnir á 1.-3. sæti í forvali Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar segist styðja Steingrím J. Sigfússon formann flokksins. Það vekur athygli að Hlynur stefnir á fyrsta sæti listans sem Steingrímur hefur skipað til þessa. Hlynur segir lýðræðislegt að fólk hafi val og krafa sé um endurnýjun í flokknum.

„Ég er ekki að bjóða mig fram á móti neinum og ég styð Steingrím. Hinsvegar finnst mér sjálfsagt að fólk fái að velja sjálft hver skipi fyrsta sætið, það er lýðræðislegt," segir Hlynur í samtali við Vísi.

Aðspurður hvort ekki hefði verið heppilegra að bjóða sig fram í annað sæti listans og láta formanni flokksins efir það fyrsta segist Hlynur vissulega hafa velt því fyrir sér.

„Við erum hinsvegar með svona fléttulista þannig að það væri frekar sjálfdautt ef ég stefndi bara á annað sætið. Þannig að ef það er karl í fyrsta sæti þá verður kona að skipa annað sætið," segir Hlynur.

Hann segist hafa rætt þessa ákvörðun sína við Steingrím áður en hann gerði hana opinbera. „Ég vildi bara gera honum ljóst að ég ætlaði ekki í neina blóðuga baráttu gegn honum en ég hef tekið eftir því að fólk er að velta þessu fyrir sér, margir hafa til dæmis spurt mig hvort ég sé að hjóla í Steingrím. Margir hafa sagt það frábært enda vilji það sjá nýtt fólk. En við Steingrímur erum í sömu hreyfingu þannig að ég er ekki að bjóða mig gegn neinum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×