Innlent

Atvinnuhorfur stúdenta hrollvekjandi

Fulltrúar í menntamálanefnd segja ástandið í atvinnumálum stúdenta grafalvarlegt.fréttablaðið/stefán
Fulltrúar í menntamálanefnd segja ástandið í atvinnumálum stúdenta grafalvarlegt.fréttablaðið/stefán

„Ég lýsi undrun minni á því stefnuleysi sem komið hefur fram af hálfu menntamálaráðuneytisins og ráðherrans í þessum efnum. Það er engin spurning að ódýrasta leiðin til að koma til móts við stúdenta við þessar aðstæður er að setja upp sumar­annir með einhverjum hætti,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðis­flokks og fulltrúi í menntamálanefnd Alþingis. Nefndin fundaði í gær ásamt fulltrúum menntamálaráðuneytis, allra háskólanna og námsmannahreyfinganna um möguleikann á sumarönnum fyrir háskólastúdenta.

Niðurstöður könnunar Stúdentaráðs Háskóla Íslands (HÍ) benda til að tæplega 13.000 stúdentar gætu verið án atvinnu í sumar. Einar segir ástandið alvarlegt. „Þetta eru mjög hrollvekjandi tölur. Háskólinn í Reykjavík og Bifröst munu bjóða upp á sumarnámskeið, en ég varð fyrir miklum vonbrigðum með hversu skammt á veg þessi mál eru komin hjá HÍ og Háskólanum á Akureyri.“

Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, sagði í samtali við Fréttablaðið á mánudag að skólinn væri aðþrengdur fjárhagslega vegna mikillar fjölgunar nemenda og minnkandi fjárveitinga, en fundað verður um málið hjá Háskólaráði í dag. Einar telur nauðsynlegt að skólayfirvöld leggi að fundi loknum fyrir stjórnvöld hvort þau séu tilbúin að koma til móts við skólann með fjárhagslegum stuðningi.

Hildur Björnsdóttir, formaður Stúdentaráðs HÍ, segir helstu kröfu ráðsins þá að boðið verði upp á fjarnám í sumar og próf í haust. Kostnaður við slíkt sé um 10 til 15 milljónir, samkvæmt sérfræðingum innan HÍ. Það sé svo verkefni stjórnvalda að útvega fjármagn vegna aukinna útgjalda LÍN, sem óhjákvæmilega myndu fylgja slíkri tilhögun.

Einar Már Sigurðsson, þingmaður Samfylkingar og formaður menntamálanefndar, segir nefndina hafa óskað eftir minnisblaði menntamálaráðuneytisins um málið. Í kjölfarið verði framhaldið metið.

„Það er ljóst að hvorki samfélagið né þessir ágætu stúdentar hafa efni á að sumrinu þeirra sé eytt í eitthvað annað en að vinna og læra,“ segir Einar Már. Ekki náðist í Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra vegna málsins.

kjartan@frettabladid.is

einar K. Guðfinnsson
einar Már Sigurðsson


hildur björnsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×