Innlent

Davíð Oddsson: Seðlabankastjóri Englands sagði okkur ekki skyldug að borga

Davíð Oddsson.
Davíð Oddsson.

Davíð Oddsson, fyrrum seðlabankastjóri Íslands, sagði í viðtali í þættinum Málefnið nú fyrir stundu, að breski seðlabankastjórinn hefði sagt í miðju efnahagshruninu að þeir myndu ekki gera kröfur um að íslenska ríkið borgaði Icesave reikningana. Davíð segir að til sé upptaka af þessu samtali.

Davíð vill meina að efnislega hafi seðlabankastjórinn, Mervyn King, sagt honum að ef tryggingasjóðurinn ráði ekki við skuldbindingarnar og menn reyni að fá mjög háa vexti þá geri hann ekki kröfu til þess að við borgum þetta.

Davíð segir að upptaka af samtalinu sé til í Seðlabankanum og vill að þessi gögn verði gerð opinber.

Afstaða Davíðs er sú sama og kom fram í Morgunblaðinu þar síðustu helgi en hann er algerlega andvígur Icesave-samkomulaginu. Hann vill að reynt verði á dómstólaleiðina og þá vill hann að varnarþing íslenska ríksisins sé hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×