Erlent

Mjaðmaaðgerðir kostnaðarsamar fyrir breska skattgreiðendur

Einn af hverjum fimm Bretum, sem gengst undir mjaðmaaðgerð á breskum einkasjúkrahúsum og stofum, þarf á nýrri aðgerð eða viðgerð að halda, innan við þremur árum eftir aðgerð. Margar hinna síðari aðgerða eru framkvæmdar á opinberum sjúkrahúsum með miklum kostnaði fyrir breska skattgreiðendur.

Fjallað er um mjaðmaaðgerðir á breskum einkasjúkrahúsum í dagblaðinu Times. Þar kemur fram að einn af hverjum fimm sem fara í mjaðmaskiptiaðgerðir á einkasjúkrahúsum eða stofum, þurfi að fara aftur í aðgerð, innan við þremur árum eftir upphaflegu aðgerðina. Ýmist þarf að að gera hlutina frá grunni, að sögn blaðsins, eða gera við. Þetta sé um það bil 20 sinnum hærra hlutfall en þekkist innan opinbera heilbrigðiskerfisins, þar sem innan við 1% sjúklinga þarf að fara í aðgerð að nýju. Einnig eru hnjáliðaaðgerðir nefndar í fréttinni, en þar þarf einn af hverjum tíu sem fer í aðgerð hjá einkaframtakinu að láta gera við.

Oft er það svo, segir Times, að kostnaðurinn við seinni aðgerðina fellur á skattgreiðendur, því viðgerðin fer oft fram innan opinbera heilbrigðiskerfisins. Upphaflega hugmyndin var að auka val sjúklinga og draga úr biðtíma eftir aðgerðum. En fram kemur í fréttinni að þessar upplýsingar sýni þörfina fyrir að umbylta rándýru kerfi. Auka þurfi eftirlit til muna svo dæmi sé tekið.

Í umræðu um einkasjúkrahús hérlendis, sem tækju við erlendum sjúklingum, hefur komið fram að komi eitthvað upp á, þyrfti heilbrigðiskerfið, sem kostað er af íslenskum skattgreiðendum að taka við.

Þá bítast nú þrjú íslensk sveitarfélög, Mosfellsbær, Garður og Álftanes, um að fá til sín bandarískt einkasjúkrahús. Þar á að gera hnjáliða og mjaðmaskiptiaðgerðir.

Hugmyndin er að framkvæmdir hefjist á næsta ári og starfsemin ári síðar. Bæjarstjórinn í Mosfellsbæ sagði í fréttum Stöðvar tvö í gær að yfir 600 framtíðarstörf kynnu að skapast á sjúkrahúsinu; en það ætti að sinna á milli fjögur og sex þúsund sjúklingum á ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×