Lífið

Nordisk Panorama sett

Úr myndinni Hlið við hlið eftir Christian Sønderby Jepsen sem sýnd er á hátíðinni. Mynd Nordisk Panorama
Úr myndinni Hlið við hlið eftir Christian Sønderby Jepsen sem sýnd er á hátíðinni. Mynd Nordisk Panorama
Tuttugasta hátíð norrænna heimildar- og stuttmynda er hafin í Reykjavík, Nordisk Panorama, eins og hún er kölluð, en setning hátíðarinnar rennur í kvöld saman við lokahóf RIFF, Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík. Veisluhöld íslenskra kvikmyndaáhugamanna halda því áfram en RIFF lýkur ekki sýningum fyrr en á sunnudagskvöld; Nordisk Panorama varir frá föstudegi til miðvikudags í næstu viku.

Nordisk panorama-hátíðin var síðast haldin í Reykjavík fyrir fimm árum og setti þá met í aðsókn.. Hátíðin fer milli fimm borga: Bergen, Oulu, Málmey og Árósar taka á móti henni milli þess sem hún kemur til Reykjavíkur. Samtök kvikmyndagerðarmanna standa fyrir hátíðinni gegnum samnorræn samtök sín; Filmkontakt Nord, en þaðan er aðstoðað við dreifingu norrænna heimildar- og stuttmynda um heim allan. Þar er stór banki með verkum norrænna kvikmyndagerðarmanna. Bankinn sá er opinn „online“-dreifingaraðilum um heim allan. Hefur hann nú verið rekinn í stafrænu formi í rúmt ár.

Í tengslum við hátíðina er haldinn markaður þar sem kaupendur og söluaðilar koma saman og ráða ráðum sínum. Á hans vegum er fjárfestingarmessa þar sem valinn hópur framleiðenda kynnir ný og væntanleg verkefni fyrir ráðandi aðilum í kaupum og styrkveitingum, bæði frá Norðurlöndum og víðar að.

Nordisk Panorama á í harðri samkeppni við nálægar hátíðir. Það er jú keppikefli hátíða að frumsýna myndir og umhverfis okkur er ekki bara RIFF, heldur líka ein virtasta hátíð á Vesturlöndum í Toronto og kvikmyndahátíðin í Kaupmannahöfn er mikilsverð tilraun borgar­yfirvalda þar, með tilstyrk stjórnvalda til að gera borgina og hátíðina þar að stærstu hátíð síðari hluta árs á þessum slóðum. Þá eru ónefndar hátíðirnar í Edinborg, Sheffield, Gautaborg og víðar sem keppa um athygli kaupenda og söluaðila. Á almannavitorði er að Nordisk Panorama í Reykjavík hefur haft sérstakt aðdráttarafl, sem nær bæði austur og vestur um haf. Ræður þar bæði lega landsins, orðspor þess í ferðamannaþjónustu og landkostum.

Á hátíðinni er mikill fjöldi nýrra og nýlegra heimildar- og stuttmynda á dagskrá. Líkt og RIFF er Nordisk Panorama flokkaskipt hátíð: keppt er um nokkra verðlaunagripi í ýmsum deildum. Kallaðir eru til virtir og reyndir fagaðilar frá löndum austanhafs og vestan. Fyrir bragðið er talverður hópur á hátíðinni sem kemur nokkrum sinnum saman á ári og deilir þá reynslu og þekkingu af stöðunni í heimi stuttmynda og heimildarmynda. Regnboginn verður aðalvettvangur hátíðarinnar en bar hátíðarinnar verður á Íslenska barnum í Pósthússtræti og markaðurinn verður á Hótel Borg.

Aðaldeild á hátíðinni eru heimildarmyndir sem verða nú 21; þar keppir Draumalandið við aðrar norrænar myndir. Á stuttmyndaparti hennar eru fjörutíu myndir til sýnis, þeirra á meðal stuttmyndin Anna sem Rúnar Rúnarsson gerði í Kaupmannahöfn og Sykurmoli, mynd Söru Gunnarsdóttur; þriðja myndin er mynd Ragnars Agnarssonar, Epic Fail, og mynd Unu Lorentsen, Álagablettir.

Í flokki ungra höfunda eru ellefu myndir. Þá er boðið upp á ellefu sérstök dagskráratriði.Nordisk Panorama heldur enn stöðu sinni sem veigamesta heimildar- og stuttmyndahátíð Norður­landa þótt ýmis merki séu um að einn stór styrktaraðili hennar, Norræni sjónvarps- og kvikmyndasjóðurinn, hafi í styrkveitingum sínum lagt hana til jafns við hátíðina í Kaupmannahöfn, sem mörgum þykir gagnrýnivert og fæst ekki skýrt nema með þjóðerni forstöðukonu sjóðsins.

Dagskrá hátíðarinnar er aðgengileg í nær sextíu síðna bæklingi og á vef hennar: www.nordiskpanorama.com. pbb@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.