Erlent

Upptökur af samtölum Nixons opinberaðar

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Richard M. Nixon.
Richard M. Nixon. MYND/Getty Images

Hljóðupptökur og skjöl frá seinna kjörtímabili Richards Nixon hafa verið birt almenningi í Bandaríkjunum.

Þarna er um að ræða hvorki meira né minna en 30.000 blaðsíður af skjölum og 154 klukkustundir af upptökum þar sem hlusta má á samtöl Nixons við hina og þessa samstarfsmenn sína í Hvíta húsinu. Gögnin eru frá janúar- og febrúarmánuði árið 1973 og eru heilmikil heimild um það sem þá var efst á baugi í Bandaríkjunum.

Forsetinn ræðir til dæmis um stríðið í Víetnam og stöðu friðarviðræðna við þarlend stjórnvöld, nýlegan og umdeildan dóm hæstaréttar Bandaríkjanna um rétt til fóstureyðinga, dauða Lyndons B. Johnson, fyrrverandi forseta, og síðast en auðvitað alls ekki síst Watergate-málið sem einu og hálfu ári síðar átti eftir að steypa Nixon af stalli.

Auðheyrt er af mörgum samtalanna að Nixon er á þessum tíma enn að baða sig í dýrðarljóma forsetakosninganna 7. nóvember 1972 þar sem hann rúllaði gjörsamlega yfir demókratann George McGovern og hafði sigur í 49 ríkjum en þar var á ferðinni fjórði stærsti kosningasigur í sögu bandarískra forsetakosninga.

Þá heyrist Nixon gefa skipun um að haldin verði ítarleg skrá yfir símtöl úr heimasíma Henrys Kissinger, helsta ráðgjafa Bandaríkjastjórnar í varnarmálum. Þessu biður hann Charles Colson, aðstoðarmann sinn, að koma í kring með aðstoð alríkislögreglunnar. „Það er allt sem við þurfum að vita, hvern í fjandanum hann hringir í,“ segir forsetinn af sinni kunnu ákveðni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×