Innlent

Byssumaður skaut á leikskóla

Lögreglumenn að störfum á föstudagskvöldið.
Lögreglumenn að störfum á föstudagskvöldið.

Lögreglan fann í morgun byssuskúlu í leikfangakassa í leikskólanum Jörfa í Hæðargerði. ,,Það er gat í gegnum vegginn í leikherbergi barnanna og hillustæða og tveir dótakassar hafa skaddast," sagði Sæunn Elfa Pedersen leikskólastjóri Jörfa í samtali við Vísi.

Skotinu var að öllum líkindum hleypt af við leikskólann á föstudagskvöldið en þá tók allt tiltækt lögreglulið frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit Ríkislögreglustjóra þátt í leit að 16 ára dreng vopnuðum skammbyssu í Smáíbúðahverfinu.

Þrír lögreglumenn fóru í Jörfa í morgun eftir að starfsmenn leikskólans urðu varir við skemmdirnar. ,,Lögreglan fann svo byssukúluna í Duplókubbakassanum sem var í hillusamstæðunni," segir Sæunn.

Sæunn sendi foreldrum barnanna í leikskólanum tölvupóst í hádeginu þar sem hún greindi frá málinu. ,,Það er leiðinlegt að byrja nýtt ár með svona leiðinlegri tilkynningu, en við vonum að eftirleiðis verði bara góðar fréttir."

Ekki náðist í Friðrik Smára Björgvinsson, yfirmann rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, vegna málsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×