Lífið

Tveir rauðhærðir keyra hringinn á íslensku metani

sögulegur leiðangur um hringveginn Þá Ómar og Einar mun ekki skorta umræðuefnin á hinni löngu leið, Ómar er lexíkon í íþróttasögunni og Vilhjálmur Einarsson, faðir Einars, er einmitt silfurhafi frá Ólympíuleikunum í Melbourne 1956.
fréttablaðið/gva
sögulegur leiðangur um hringveginn Þá Ómar og Einar mun ekki skorta umræðuefnin á hinni löngu leið, Ómar er lexíkon í íþróttasögunni og Vilhjálmur Einarsson, faðir Einars, er einmitt silfurhafi frá Ólympíuleikunum í Melbourne 1956. fréttablaðið/gva
Á föstudagsmorgun hefst sögulegur leiðangur. Þá fara þeir Ómar Ragnarsson fréttamaður og Einar Vilhjálmsson spjótkastari fyrstir hringinn á íslensku eldsneyti.

„Ég þekki pabba hans og þetta er allt í lagi. Það er mér nóg. Þetta er ljúfur drengur. Mér líkar vel við hann,“ segir Ómar spurður hvernig það leggist í hann að sitja svo langa leið, eða í tvo sólarhringa, með Einari í bíl.

Ferðin er á vegum Metan hf., þar sem Einar er markaðsstjóri, og N1 og er farin til að vekja athygli á því að metanbílar eru umhverfisvænir. Metan er framleitt á sorphaugunum og er þar því um að ræða gufur sem færu að öðrum kosti ónýttar út í andrúmsloftið. Og metan kostar ekki gjaldeyri.

Þarna er því um sjálfbæra orku að ræða. Bíllinn sem þeir fara á, rauðhærðu félagarnir, er Ford pickup – sem nemendur í Borgarholtsskóla tóku að sér að breyta. Ómar segist ekki vita hverju hann eyðir á hundraðið enda sé það ekki málið. Heldur að þetta sé íslenskt eldsneyti.

„Þetta markar tímamót. Og lítið skref í stóra átt. Það er þetta sem er hið stórkostlega við framtíð landsins. Sjálfbærni eldsneytis. Ef við látum ekki álhringana fá alla orkuna okkar,“ segir Ómar fjallhress að vanda. Ómar mun sitja undir stýri – Einar fær ekkert að keyra. „Nei, ég á víst að taka það verkefni að mér. Sem mikill ferðahundur og gamall rallari.“

Ómar, sem þekktur er fyrir það á undanförnum árum að aka aðeins á mjög litlum bílum, þeim sem eyða minnstu eldsneyti, segir að það verði ekkert mál að aka þetta stórum bíl. „Hann þarf að vera svona stór því við verðum sennilega fjögur í bílnum. Ætli konurnar okkar komi ekki með að einhverjum hluta. Jú, jú, ég er vanur að keyra allar stærðir. Keyrði í gamla daga stóran vörubíl með miklum hlössum, tvíkúplaði og gerði allar kúnstir sem þurfti með slíka bíla. En það eru til allar gerðir af metanbílum.“

Félagarnir fara fyrst norður fyrir, gista á Akureyri, og munu snæða á N1-bensínstöðvum á leiðinni. Ómari hrýs ekki hugur við einhæfu mataræðinu enda verður Cheerios-pakki í aftursætinu – eftirlætisfæða Ómars þegar hann er á ferðinni. Hann var akkúrat að fá sér SS-pylsu, tvöfalda í brauði, þegar blaðamaður heyrði í honum. „Þetta er ágætis matur.“

Metanbíll Ómars og Einars verður fylltur á bensínstöð N1 á Ártúnshöfða í upphafi ferðar en þangað liggur rör beint frá sorphaugunum – eini eldsneytisstaðurinn í víðri veröld sem fær eldsneytið beint af sorphaugunum, beint af kúnni ef svo má að orði komast. Þá er meiningin að taka hús á föður Einars, Vilhjálmi Einarssyni, fyrrverandi skólastjóra og silfurverðlaunahafa í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956.

Þannig að þá Ómar og Einar mun ekki skorta umræðuefni á langri leið en Ómar er lexíkon í íþróttasögunni. „Já, eða allri eldri gerðinni af henni.“

jakob@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.