Innlent

Enn í gæsluvarðhaldi vegna mannsláts í sumarbústað

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands frá 18.febrúar um gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um stórfellda líkamsárás með þeim afleiðingum að fórnarlambið lést skömmu síðar.

Maðurinn var staddur ásamt fórnarlambi í sumarbústað í Oddsholti í Grímsnesi aðfaranótt 8.nóvember þegar atburðurinn átti sér stað. Maðurinn hefur viðurkennt að hafa ráðist á fórnarlambið en neitar að það hafi gerst með þeim hætti sem lýst var í ákærunni.

Þótti sýnilegt að meint brot mannsins var sérstaklega alvarlegt þar sem „ætluð verknaðaraðferð" var háskaleg og ofsafengin. Jafnframt kom fram í úrskurði héraðsdóms að ef maður, sem grunaður er um jafn alvarlegt brot og sakborningur er sakaður um, gengi laus áður en máli lyki með dómi myndi það valda hneykslan í samfélaginu og særa réttarvitund almennings.

Maðurinn mun því sitja í gæsluvarðhaldi þar til dómur er fallinn, en þó ekki lengur en til 18.mars.






Tengdar fréttir

Öll úrskurðuð í gæsluvarðhald

Tvær konur og einn karlmaður voru í kvöld úrskurðuð í gæsluvarðhald til 28.nóvember í tengslum við mannslát í sumarbústað í Grímsnesi í gærmorgun. Áður hafði annar karlmaður verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins.

Mannslát í sumarbústað: Hinir handteknu enn í haldi

Fólkið sem handtekið var í tengslum við mannslát í sumarbústað rétt fyrir utan Selfoss í gær er enn í haldi að sögn lögreglu. Um hálf níu leytið í gærmorgun hafði maður samband sem hafði komið að félaga sínum látnum í sumarbústað sem þeir gistu í ásamt tveimur konum. Lögregla og sjúkralið fóru á staðinn og var hann úrskurðaður látinn. Maðurinn er útlendingur en þrír samlandar hans voru handteknir á staðnum. Lögregla rannsakar nú málið og segir frekari frétta að vænta síðar í dag.

Gæsluvarðhalds krafist yfir fjórða manninum

Lögreglan á Selfossi hefur farið fram á gæsluvarðhaldsúrskurð yfir fjórða manninum sem handtekinn var síðdegis í gær vegna mannsláts í sumarbústað í Grímsnesi. Ákvörðun dómari mun liggja fyrir síðar í dag.

Lést af áverkum af mannavöldum

Bráðabirgðaniðurstöður krufningar á líki mans, sem lést sumarbústað í Grímsnesi um helgina, benda ótvírætt til þess að hann hafi látist af áverkum sem hann hlaut af mannavöldum.

Maðurinn fannst látinn í sumarbústað

Í tilkynningu frá lögreglunni á Selfossi vegna mannslát rétt fyrir utan bæinn kemur fram að rétt fyrir hálf níu í morgun hafi maður haft samband og sagst hafa komið að félaga sínum látnum í sumarbústað sem þeir gistu í ásamt tveimur konum.

Rannsókn heldur áfram á meintu manndrápi

Lögreglan á Selfossi heldur áfram rannsókn á meintu manndrápi í sumarbústað um síðustu helgi. Í tilkynningu frá Ólafi Helga Kjartanssyni sýslumanni segir að enn séu nokkur atriði óljós, þrátt fyrir ítarlegar yfirheyrslur í gær og í dag.

Einum sleppt úr haldi í rannsókn á andláti manns í sumarbústað

Lögreglan á Selfossi hefur sleppt einum fjórmenninganna sem verið hafa í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á andláti manns í sumarbústað í Grímsnesi fyrir rúmri viku. Sá hefur jafnframt verið úrskurðaður í farbann til 18. febrúar á næsta ári.

Einn í gæsluvarðhald vegna mannsláts í sumarbústað

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 28.nóvember vegna mannslát í sumarbústað í Grímsnesi í gær. Maðurinn var handtekinn ásamt tveimur öðrum konum á staðnum. Lögregla fór einnig fram á að konurnar yrðu úrskurðaðar í gæsluvarðhald en dómari tók sér frest þar til síðar í dag til þess að kveða upp úrskurð varðandi þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×