Lífið

Númi kokkur hættir með Segurmo

Númi hefur rekið veitingastaðinn Segurmo á Laugavegi í næstum ár. Nú ætlar hann í frí.fréttablaðið/valli
Númi hefur rekið veitingastaðinn Segurmo á Laugavegi í næstum ár. Nú ætlar hann í frí.fréttablaðið/valli

Kokkurinn knái Númi Thomasson hefur ákveðið að taka sér frí frá eldamennsku um óákveðinn tíma og mun því hætta rekstri veitingastaðarins Segurmo, sem er í húsnæði Boston á Laugavegi, í lok mánaðarins.

Stutt er síðan staðurinn var valinn besti veitingastaðurinn í Reykjavík af blaðinu Grapevine og því koma fréttirnar nokkuð á óvart. „Ég stofnaði fyrirtækið 9. september í fyrra og er búinn að vera hér nánast á hverjum degi síðan þá. Mig langar bara að taka mér smá frí og kannski lesa bók, hitta vini mína og slappa aðeins af," segir Númi, sem lærði til kokks á Hótel Kempinski í Berlín á sínum tíma. Hann starfaði einnig sem kokkur fyrir söngkonuna Björk meðan á tónleikaferðalagi hennar stóð.

„Þetta getur verið mjög erfitt starf og tekið mikið á taugarnar. En það fer auðvitað svolítið eftir veitingastaðnum hversu erfitt þetta er, það að reka sinn eigin stað er til dæmis mjög erfitt en á sama tíma mjög gefandi." Aðspurður segist Númi ekki vita hvað tekur við eftir Segurmo. „Ég er ekki búinn að hugsa það langt því ég er enn á fullu í vinnunni og á eftir að pakka öllu niður og ganga frá lausum endum. Ég gæti vel hugsað mér að sinna tónlistinni betur. Þó að Segurmo verði lokað núna er ekki útilokað að hann poppi upp aftur einhvern tímann seinna."

Veitingasala verður áfram á Boston, þar sem Segurmo var til húsa, en undir öðru nafni.

- sm










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.