Lífið

Klikkað fólk úr Kópavoginum

Ari fer létt með að mynda hvað sem er, hvaðan sem er. 
Fréttablaðið/Arnþór
Ari fer létt með að mynda hvað sem er, hvaðan sem er. Fréttablaðið/Arnþór

Tökum á kvikmynd Gríms Hákonarsonar, Sumarlandinu, lauk um helgina. Ljósmyndari Fréttablaðsins leit við síðasta daginn.

„Þetta hefur gengið framar vonum, það er bara eins og álfarnir hafi verið með okkur í liði. Það hefur enginn brotist inn til okkar eða neitt," segir Grímur Hákonarson um Sumarlandið en tökum lauk aðfaranótt laugardags.

Myndin fjallar um fjölskyldu sem reynir að lifa af spíritisma og leikur Ólafía Hrönn Jónsdóttir vinsælan miðil. Kjartan Guðjónsson leikur manninn hennar en í öðrum hlutverkum eru Snorri Engilbertsson, Hallfríður Tryggvadóttir, nítján ára Verzlingur, og Nökkvi Helgason, tíu ára. Myndin er framleidd af Sögn og Blueeyes en Ari Kristinsson er tökumaður.

Bíður átekta Snorri Engilbertsson bíður rólegur eftir að tökur hefjist.

„Þetta verður fyrsta Kópavogsmyndin, hún gerist öll þar og er tekin upp að mestu leyti á Kársnesinu í gömlu húsi. Það var sumar­bústaður Thors-fjölskyldunnar og fyrsta húsið á þessu svæði en er umkringt iðnaðarhúsnæði í dag. Ég er úr Kópavogi og helvíti margir sem hafa verið að vinna í myndinni héðan, Balti og Ari. Það er mjög mikið af klikkuðu liði úr Kópavoginum."

Hann segir það skemmtilega frétt úr tökum að Draugasafnið á Stokkseyri ætli að nota brúður sem notaðar voru í myndinni. „Þannig að það verða því hugsanlega nokkrir karakterar eftir þarna á Stokkseyri."

Hann segir miðla almennt jákvæða gagnvart myndinni. „Svo hefur Magnús Skarphéðinsson hjá Sálarrannsóknarfélaginu verið að aðstoða okkur og við höfum fengið að fara með leikara á miðilsfundi. Fyrirmyndin að leikmyndinni er húsnæði Sálarrannsóknar­félags Reykjavíkur." Áætluð útgáfa myndarinnar er í janúar.

kbs@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.