Lífið

Kalli Olgeirs flýr kreppuna til Svíþjóðar

Til Svíþjóðar Karl Olgeirsson hefur ákveðið að flytja til Svíþjóðar ásamt fjölskyldu sinni enda sé stemningin hér á landi ekkert sérstök.Fréttablaðið/Valli
Til Svíþjóðar Karl Olgeirsson hefur ákveðið að flytja til Svíþjóðar ásamt fjölskyldu sinni enda sé stemningin hér á landi ekkert sérstök.Fréttablaðið/Valli

„Ég er að flýja land, segi það bara án þess að blikna, og það eru ýmsar ástæður fyrir því,“ segir píanóleikarinn og lagahöfundurinn Karl Olgeirsson. Hann flýr til Svíþjóðar ásamt konu og tveimur börnum, ætlar að koma sér fyrir í Lundi og einbeita sér að tónsmíðum. „Það eru nokkrar ástæður fyrir þessu, það er meiri vinna þarna úti og svo er stemningin hérna heima ekkert æðisleg,“ útskýrir Karl.

Karl hefur lengi verið meðal fremstu tónlistarmanna þjóðarinnar en hann segist hafa verið kominn á ákveðna endastöð. „Mig hefur lengi langað til að komast inn á stærri tónlistarmarkað, í Svíþjóð búa tíu milljónir þannig að þetta er miklu meira um sig heldur en Ísland.“ Svíþjóð er stundum kölluð „poppland“ af tónlistarsérfræðingum og Karl er vel meðvitaður um að músíkin er mikill iðnaður hjá Svíunum. „Þarna drýpur bara smjör af hverju strái,“ segir hann í léttum dúr.

Hann rennir þó blint í sjóinn, kveðst þó kominn með slatta af tenglum frá vinum og kunningjum sem hafa verið að vinna úti í heimi. „Og svo er ég búinn að koma mér upp heimasíðu þar sem áhugasamir geta hlustað á lögin mín, ég er búinn að vera að vinna að þessu í dágóðan tíma.“ En kreppan ógurlega hafði úrslitaáhrif. „Já, ég held að hún hafi haft það, maður hefði eflaust ekki látið verða af þessu ef allt hefði verið í himnalagi hérna heima.“

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.