Lífið

Spurningakeppninni slaufað

Ævar Örn ekki sjá um spurningakeppnina um hvítasunnuhelgina. heldur „bara“ um Glerlykilinn, sem verður afhentur í Norræna húsinu klukkan fjögur í dag.
Ævar Örn ekki sjá um spurningakeppnina um hvítasunnuhelgina. heldur „bara“ um Glerlykilinn, sem verður afhentur í Norræna húsinu klukkan fjögur í dag.

„Hún verður bara að bíða til næsta árs, umsjónarmaðurinn ætlaði að koma með einhverjar tillögur en þær komu ekki," segir Sigrún Stefánsdóttir, dagskrárstjóri Rásar 1 og 2. Eins og kom fram í fjölmiðlum fyrir páskana ákvað Sigrún að slá af spurningakeppni fjölmiðlanna, vinsælt útvarpsefni í umsjá Ævars Arnar Jósepssonar. Sigrún hafði varla sleppt orðinu þegar Bylgjan stökk á hugmyndina, fékk sjónvarpsmanninn Loga Bergmann í lið með sér og hélt keppnina.

Málið fékk svo á sig hinn skemmtilegasta og farsakenndasta blæ því Sigrún birtist, öllum að óvörum, á mbl.is skömmu seinna og tilkynnti að Rás 2 hygðist halda spurningakeppni fjölmiðlanna, ekki um páskana heldur hvítasunnuhelgina. Og að Ævar Örn myndi útfæra hana að einhverju leyti í samræmi við nýtt landslag. „Ég hef [...] orðið vör við mikinn áhuga á að henni verði fram haldið þannig að ég er búin að ræða við Ævar Örn Jósepsson spyril um að útfæra nýja útgáfu í ár," sagði Sigrún í samtali við vefinn.

Ævar Örn viðurkennir að spurningakeppnin um hvítasunnuhelgina hafi dottið upp fyrir í sinni dagskrá. „Eftir að þessu var frestað um páskana setti ég þetta bara á ís og fór að einbeita mér að öðrum hlutum," segir Ævar en hann hefur unnið dag og nótt að undirbúningi glæpasagnahátíðar í Reykjavík sem hefst í dag.

„Og svo var nú heldur ekki verið að ýta mikið á mig, þannig að eitthvað virðist hafa skort upp á áhugann," bætir Ævar við. Stóri dagurinn rennur hins vegar upp hjá honum klukkan fjögur í Norræna húsinu því þá afhentir menntamálaráðherra Glerlykilinn. Sú samkunda er opin öllum, ekki bara fjölmiðlamönnum líkt og spurningakeppnin sáluga.- fgg












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.