Lífið

Óvenju mikið af ballöðum

Svo virðist sem Íslendingar hafi gengið í takt með öðrum Evrópuþjóðum þegar við völdum ballöðu Óskars Páls og Jóhönnu Guðrúnar í Eurovision. Fréttablaðið/Anton
Svo virðist sem Íslendingar hafi gengið í takt með öðrum Evrópuþjóðum þegar við völdum ballöðu Óskars Páls og Jóhönnu Guðrúnar í Eurovision. Fréttablaðið/Anton

Búið er að draga saman lönd í undanþætti Euro­vision í ár og verður Ísland á fyrra kvöldinu. Jóhanna Guðrún syngur Is It True að kvöldi þriðjudagsins 12. maí í Ólympísku íþróttahöllinni í Moskvu. Friðrik og Regína kepptu á fimmtudagskvöldi í fyrra. Átján flytjendur keppa við Jóhönnu Guðrúnu, en tíu efstu lögin komast í úrslitaþáttinn 16. maí.

Nú er búið að velja 25 af 43 Euro­visionlögum ársins. Allt virðist vera á sínum stað, smástelpu­poppið, þjóðlega poppið og ofurballöðurnar. Meðal þeirra sem keppa við Jóhönnu er söngkonan Susanne Georgi frá Andorra, söngkonan Hadise frá Tyrklandi og hljómsveitin Waldo‘s People frá Finnlandi, sem spilar popp með rappívafi. Af þeim lögum sem komin eru fram er ekkert sem gæti kallast „öðruvísi“ eða „flippað“. Í fyrra voru óvenju mörg „flippuð“ lög en engu þeirra gekk vel svo kannski eru menn brenndir á því. Ef einhverja ályktun má draga af lögunum sem komin eru fram er það helst að óvenju mikið er af ballöðum í ár.

Is It True hefur fengið misjafna dóma hjá Euro-nördunum sem hanga á Esctoday-síðunni. „Mjög grípandi lag sem staldrar við í hausnum á manni. Fullt af góðum ballöðum í ár. Ef Ísland vinnur þá getur landið ekki haldið næstu keppni því þjóðin er gjaldþrota,“ skrifar Bretinn Jim Hegarty sem þykist með allt á hreinu. Annar Breti, „Nordic sheep“, skrifar: „Ég veit ekki hvað skal segja. Þetta er íslenskt og ég elska allt sem er íslenskt, söngkonan er sæt og getur sungið, og lagið er eitt það besta í keppninni… en samt, ég fell í dá í hvert skipti sem ég heyri það. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa tilfinningum mínum þegar ég heyri lagið… Það er eins og að kýla í risastóran sykurpúða. Maður getur notað allan þann kraft sem maður vill í höggið en samt skemmir maður ekki neitt.“

drgunni@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.