Erlent

Tíu helstu draugabæirnir opinberaðir

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Draugabær í Arizona.
Draugabær í Arizona.

Áströlsk ferðasíða hefur valið tíu helstu draugabæi heimsins, staði sem ekki sála býr á.

Það er vefsíðan IgoUgo.com, þar sem ferðalangar skiptast á fróðleiksmolum og ferðasögum, sem hefur kortlagt draugabæina sem kallast auðvitað ghost towns upp á engilsaxnesku. Þarna er ekki átt við það sem við Íslendingar myndum kalla svefnbæi vegna rólegs háttalags og almennrar ládeyðu heldur eru þetta borgir og bæir sem íbúarnir hafa yfirgefið allir sem einn af ýmsum ástæðum. Lítum á það helsta.

Efst á listanum trónir Kolmanskop í Namibíu, yfirgefinn demantsnámubær í miðri eyðimörk. Þarna var allt vitlaust á þriðja áratugnum. Svo kláruðust demantarnir og árið 1956 var ekki sála eftir í bænum. Fatehpur Sikri á Indlandi átti að vera fegursta borg heims eða þannig hafði Akbar keisari, sem lét byggja hana, hugsað sér framtíðina. Eini gallinn var sá að þar var enginn aðgangur að vatni og að tíu árum liðnum var hún galtóm.

Oatman í Arizona í Bandaríkjunum er í uppáhaldi hjá notendum síðunnar. Þar er enginn en leikarinn Clark Gable átti eitt sinn brúðkaupsnótt á hótelinu þar. Í níunda sæti er írska eyjan Great Blasket Island sem var yfirgefin þegar íbúarnir gátu ekki lengur lifað af gæðum hennar. Þar búa hins vegar lundar í þúsundatali. Án efa forvitnilegt að sjá marga þessara staða en ekki búast við mikilli þjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×