Innlent

Sjö með Svínaflensu á Íslandi

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Svínaflensutilfelli hér á landi eru nú orðin sjö. Aðstandandi eins úr hópi þeirra sem smitast hefur, undrast hve litlar upplýsingar komi frá heilbrigðisyfirvöldum.

Sóttvarnarlæknir sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem hann staðfesti þrjú ný tilfelli. Um er að ræða ungt fólk á tvítugsaldri sem öll eru nýkomin frá Ástralíu og Bandaríkjunum. Þau veiktust öll eftir að þau komu heim.

Ættingi manns sem greindist með flensuna er rúmliggjandi en hefur enn ekki fengið staðfest hvort hann sé með svínaflensuna. Í samtali við fréttastofu sagðist hann undrast hver litlar upplýsingar hann fengi frá heilbrigðisyfirvöldum. Sýni hafi verið tekið úr honum í gær þar sem náinn ættingi hans liggur nú sárlasinn vegna flensunnar. Hann sagðist undarlega að málum staðið og fannst óþægilegt hve lítil eftirfylgnin væri. Hann sagði einkenni flensunnar vera hita og beinverki.

Annar viðmælandi fréttastofu, sem veiktist af svínaflensu fyrir helgi sagði einkennin svipuð annari inflúensu, hiti, beinverkir og hálsbólga. Hann vildi ekki koma fram undir nafni, af ótta við að ofsahræðsla myndi grípa um sig í nágrenni við heimili hans. Hann var að koma frá Ástralíu ásamt fjölskyldu sinni. Kærasta hans fékk líka flensuna en aðrir fjölskyldumeðlimir virðast hafa sloppið.

Hann er sáttur við að hafa fengið flensuna nú ekki í haust þegar hún væri jafnvel búin að stökkbreyta sér. Nú væri hann vonandi kominn með mótefni og að það væri fínt að vera búinn að klára þetta og að hann sé á batavegi.

Sóttvarnarlæknir hvatti í dag lækna til að taka sýni hjá sjúklingum með inflúensulík einkenni. Norðmenn, Bretar og Ástralir hafa pantað bóluefni fyrir alla þjóðina, Íslendingar fyrir helming og Þjóðverjar fyrir þriðjung. Bóluefnið er enn í framleiðslu og þróun og verður ekki til fyrr en eftir nokkra mánuði. Það verður af mjög skornum skammti þegar það berst til landsins og þá á eftir að koma í ljós hvort hægt verði að nota það.

589 hafa nú látist úr flensunni um víða veröld.




Tengdar fréttir

Fórnarlamb svínaflensu: „Eins og hver önnur flensa“

„Þetta var bara eins og hver önnur flensa,“ segir tvítugur karlmaður sem situr nú heima í sóttkví, smitaður af svínaflensu. Maðurinn er nýkominn frá Ástralíu þar sem hann dvaldist í sex vikur ásamt fjölskyldu sinni. Kærasta mannsins smitaðist einnig af flensunni en aðrir fjölskyldumeðlimir virðast hafa sloppið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×