Innlent

Nýting þorsks ríkisleyndarmál

Jón Bjarnason
Jón Bjarnason

„Vinnubrögðin varðandi þetta mál eru algjörlega forkastanleg. Með þetta bréf er farið eins og mannsmorð og látið eins og það sé ekki til,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sem gagnrýnir málsmeðferð Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra hart vegna nýrrar nýtingarstefnu stjórnvalda í þorskveiðum sem Fréttablaðið greindi frá á miðvikudag.

„Ég vek athygli á því að bréf ráðherrans er ritað til Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, hinn 22. maí. Hálfum mánuði síðar kemur veiðiráðgjöfin frá Hafrannsóknastofnuninni og viðbrögðin hjá ráðherranum eru að yfir þessi mál verði farið og ekkert sé afráðið. Samt liggur fyrir núna að hann og ríkisstjórnin eru búin að taka allar ákvarðanirnar varðandi þorskinn og tilkynna þetta út í heim. Þetta lítur allt út eins og verið sé að blekkja,“ segir Einar.

Einar segir að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hafi ekki verið tilkynnt um málið og fyrst í vikunni hefði komið í ljós að bréfið hefði verið sent. „Ég spyr bara; hvað á þetta laumuspil að þýða? Er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi þorsknýtinguna orðin að einhverju ríkisleyndarmáli sem enginn má vita af nema ríkisstjórnin og þeir hjá ICES? Í þessu máli fylgir ríkisstjórnin vana sínum og stundar það að fara í feluleiki eins og væri hún krakki. Þetta eru mjög vond vinnubrögð og hreint nýmæli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×